Erlent

Tveir deila friðarverðlaunum Nóbels

Mohammad Yunus, stofnandi Grameen-bankans.
Mohammad Yunus, stofnandi Grameen-bankans. MYND/AP

Bangladessbúinn Mohammad Yunus og Grameen-bankinn sem hann stofnaði deila með sér friðarverðlaunum Nóbels í ár. Þetta var tilkynnt í morgun. Verðlaunin fá þeir fyrir viðleitni sína til að stuðla að efnahagslegum og félagslegum umbótum meðal hinna fátæku.

Í umsögn nóbelsnefndarinnar segir að Mumhammad Yunus hafi með hugmyndum sínum hjálpað milljónum manna, ekki aðeins í Bangladess heldur öðrum löndum, með lánum til fátækra. Starf hans hafi hafist fyrir þremur áratugum og virst nær ómögulegt en hugmyndir hans og bankans hafi verið teknar upp af öðrum stofnunum víða um heim.

Þá segir í úrskurðinum að friður komist ekki á í heiminum fyrr en stórum hóps fólks verði bjargað úr gildru fátæktar og að sérhver manneskja eigi rétt á sómasamlegu lífi. Starf Yunus og bankans hafi reynst mikilvægt í safmfélögum þar sem konur eigi undir högg að sækja og lýðræðis- og efnahagsframfarir geti ekki orðið að fullu nema konur og karlar standi jöfn.

Mohammad Yunus er fæddur árið 1940 í Bangladess. Hann lauk doktorsprófi í hagfræði frá Vanderbilt-háskólanum í Bandaríkjunum árið 1969 og stofnaði sjö árum seinna Grameen-bankann í Dhaka í Bangladess. Hann hefur veitt fátækum lán sem þeir ættu annars ekki kost á. Yunus hefur auk þess starfað að málefnum fátækra á vegum Sameinuðu þjóðanna í mörg ár.

Mohammad Yunus sagði í samtali við norska fjölmiðla í morgun að hann tryði því varla að hann hefði hlotið verðlaunin. „Þetta eru frábær tíðiindi fyrir okkur öll, Grameen-bankann, Bangladess og öll fátæku ríkin og fátæka alls staðar í heiminum," sagði hann.

Yunus sagðist hlakka til að heimsækja Osló en þangað kemur hann 10. desember til að taka við Nóbelsverðlaununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×