Erlent

Íbúar í New York voru slegnir

Sá sem flaug lítilli einkavél á byggingu í New York í gærkvöldi reyndist vera hafnarboltastjarna úr New York Yankees-liðinu. Íslendingur, sem býr í næstu götu, segir borgarbúa hafa verið slegna og óttast að um hryðjuverk væri að ræða, en lögregluyfirvöld hafa útilokað að svo sé.

Enn er ekki ljóst hvað olli slysinu, en neyðarkall barst frá vélinni skömmu áður en hún skall á byggingunni. Hafnaboltaleikmaðurinn Cory Lidle átti vélina og var við stjórnvölinn, en hann lét lífið í slysinu, sem og sá með honum var í vélinni.

Hreinn Líndal, óperusöngvari, býr í næstu götu við slysstaðinn. Hann segir fólki auðvitað hafa brugðið og margir jafnvel talið að voðaverk væri verið að fremja á ný. Í gær var 11. október og það jók enn á óttann við að um væri að ræða hryðjuverk. Hreinn segir marga hafa velt fyrir sér hvað væri að gerast og litið til dagsetningarinnar og hugsað aftur um rúm 5 ár.

Byggingin er fimmtíu hæðir og í henni eru 180 lúxusíbúðir sem nokkrar eru ónýtar eftir slysið. Hreinn segir björgunarlið hafa brugðist mjög fljótt við og greað lögregla og slökkvilið sé við öllu búið eftir hörmungarnar ellefta september árið 2001.

Þótt þetta hafi verið slys, þá velta margir New York-búar því fyrir sér hvernig standi á því að flugvélar geti flogið óhindrað svo nálægt háhýsum borgarinnar, eftir hryðjuverkaárásirnar fyrir 5 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×