Innlent

Harma að fjármagn sé ekki eyrnamerkt leiknu íslensku sjónvarpsefni

MYND/GVA

Stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda fagnar nýjum samingi milli Ríkisútvarpsins og Menntamálaráðuneytisins um aukinn hlut íslensks dagskrárefnis í Ríkissjónvarpinu á næstu fimm árum. Í ályktun frá stjórninni er það hins vegar harmað að í samningnum sé hvorki fjármagn né útsendingarhlutfall eyrnamerkt leiknu íslensku sjónvarpsefni.

„Félagið hefur á undanförnum árum ítrekað bent á nauðsyn slíkrar eyrnamerkingar, til að fyrirbyggja að innlent leikið sjónvarpsefni, sem er vinsælasta dagskrárefni í öllum sjónvarpsstöðvum heimsins, en jafnframt eitt hið dýrasta í framleiðslu, þurfi sífellt að keppa við ódýrara efni um fjármagn, með þeim afleiðingum sem við blasa.

 

Augljóst er að sé aðeins miðað við útsendingarmínútur af íslensku efni, hlýtur ávallt að vera hætta á því að tiltölulega ódýrt spjallþáttaefni verði yfirgnæfandi í þeim flokki," segir í ályktuninni.

Enn fremur vísar stjórn Félags leikskálda og handritshöfunda í ákvæði samningsins sem segir að RÚV skuli kaupa eða meðframleiða leikið sjónvarpsefni, kvikmyndir, heimildamyndir eða annað sjónvarpsefni og verja til þess að lágmarki 150 milljónum krónar á ári frá og með árinu 2008. Sú upphæð á svo að hækka í 250 milljónir á samningstímanum.

 

„Stjórn FLH væntir þess að röð þeirra efnisflokka sem hér er notuð verði tekin bókstaflega varðandi mikilvægi þeirra í framkvæmd samningsins. Hingað til hefur efnisflokkurinn "annað sjónvarpsefni" ætíð verið í fyrirrúmi í sjónvarpsdagskrá RÚV. Væntanlega er hér gert ráð fyrir öðru," segir að endingu í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×