Innlent

Níu gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi

Frá Akureyrarflugvelli.
Frá Akureyrarflugvelli. MYND/KK

Níu manns gefa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi vegna komandi alþingiskosninga, þar af fjórir sem sækjast eftir forystusætinu. Þetta varð ljóst eftir að framboðsfrestur rann út í gær.

Tveir gefa kost á sér í fyrsta sætið, þeir Benedikt Sigurðarson, aðjúkt á Akureyri og Kristján Möller þingmaður, og þá stefna þau Ragnheiður Jónsdóttir og Örlygur Hnefill Jónsson, lögfræðinar á Húsavík á fyrsta til þriðja sæti. Þingmaðurinn Einar Már Sigurðarson og varaþingmaðurinn Lára Stefánsdóttir berjast um annað sætið og þá stefna Akureyringarnir Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján Ægir Vilhjálmsson og Sveinn Arnarson á þriðja sætið. Kosið verður með póstkosningu og verða kjörgögn send út 20. október. Hægt er að senda inn atkvæði til 31. október en talning fer fram þann fjórða nóvember. Kosið verður um fyrstu þrjú sæti framboðslistans.

Kosning í sætin þrjú verður bindandi og segir í tilkynningu frá kjörstjórn Samfylkingarinnar í kjördæminu að bæði kynin skuli eiga sæti í þremur sætum listans. Haldnir verða sameiginlegir kynningarfundir með frambjóðendum á nokkrum stöðum í kjördæminu á næstu vikum og verða þeir fyrstu á Reyðarfirði og Djúpavogi næskomandi sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×