Erlent

Býður sendiherra á sinn fund

Benedikt páfi sextándi.
Benedikt páfi sextándi. MYND/AP

Páfi ætlar að gera tilraun til að ná sátt við múslima og hefur boðið sendiherra þeirra í heimsókn til sín til að ræða málin.

Bendedikt páfi sextándi hefur boðið sendiherra múslimaríkja á fund sinn á mánudaginn í sumarhöll sína á Ítalíu. Auk þess hefur hann boðið trúarleiðtogum múslima á Ítalíu á fundinn.

Múslimar eru páfa margir hverjir æfareiðir vegna ummæla hans um Múhameð spámann. Páfi vitnaði í ræðu sinni í Háskólanum í Regensburg í Þýskalandi í síðustu viku til orða kristins keisara Austrómverska ríkisins á fjórtándu öld, þess efnis að Múhameð spámaður hefði aðeins fært heiminum illsku og miskunnarleysi.

Ummælin hrundu af stað reiðiöldu í múslimaheiminum og hafa mótmæli farið fram víða. Þess hefur verið krafist að páfi verði sóttur til saka fyrir ummælin og harðlínuklerkur múslima í Sómalíu hvatti trúbræður sína til að elta páfa uppi og myrða hann.

Páfi vill með fundinum á mánudaginn reyna að útskýra fyrir múslimum að hann hafi ekki meint neitt mógandi í þeirra garð með ræðu sinni og ummæli hans hefðu í raun verið miskilin.

Páfi hefur þrisvar á síðastliðinni viku komið opinberlega fram og sagt að hann harmi þau viðbrögð sem orðið hafa við ræðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×