Erlent

Minnst ár að kosningum í Taílandi

Leiðtogar herforingjabyltingarinnar í Taílandi segja að ár hið minnsta muni líða þar til landsmenn fái að kjósa sér nýja leiðtoga. Nýr forsætisráðherra verður hins vegar skipaður innan tveggja vikna. Til átaka kom í dag á milli stuðningsmanna Thaksins, fyrrverandi forsætisráðherra, og andstæðinga hans.

Sólarhringur er liðinn frá því að taílenski herinn, undir stjórn Shonti Búnjaratglín, steypti Thaksin Shinawatra forsætisráðherra af stóli án þess að þurfa að hleypa af einu einasta skoti úr byssum sínum. Friðsamlegt var í höfuðborginni Bangkok framan af degi en undir kvöld réðust stuðningsmenn forsætisráðherrans fyrrverandi að fólki sem fagnaði byltingunni og tuskaðist á við það. Ólgan í landinu er þrátt fyrir þetta furðu lítil, margir landsmenn virðast raunar gráta brotthvarf Thaksins þurrum tárum.

Í morgun boðaði Shonti til blaðamannafundar þar sem hann reyndi að fullvissa þjóð sína að lýðræði yrði komið aftur á eins fljótt og auðið væri. Nýr forsætisráðherra takið við eftir hálfan mánuð og kosið verði eftir í fyrsta lagi eitt ár.

Shonti sagði að helsta verkefni nýrrar bráðabirgðastjórnarinnar yrði að bæta stjórnarskránna og á grundvelli hennar yrði boðað til nýrra kosninga í landinu eftir ár hið minnsta. Shonti sagði að Thaksin væri velkomið að snúa aftur til Taílands en hann dvelur nú í Lundúnum. Ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Ástralíu, svo og Evrópusambandið, hafa fordæmt valdaránið. Stjórnmálaskýrendur segja hins vegar að það geti orðið til eyða þeirri sundrungu sem öðru fremur hefur einkennt taílenskt stjórnmálalíf undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×