Íslenski boltinn

Langt í land í máli ÍR og KA/Þórs

Skrifstofa KSÍ hefur viðurkennt að hafa gert mistök með því að veita markverði kvennaliðs ÍR keppnisleyfi fyrir úrslitaleikina gegn Þór-KA um laust sæti í Landsbankadeild kvenna, því markvörðurinn var þar með að spila með sínu þriðja liði í sumar sem er bannað. Þetta kom fram í íþróttafréttum NFS í kvöld.

ÍR tryggði sér sæti í Landsbankadeild kvnna í fyrsta skipti í 99 ára sögu félagsins á dögunum eftir sigur á Þór KA í tveimur leikjum. Fyrri leiknum lyktaði með jafntefli 2-2 en ÍR vann síðari leikinn 1-0. Í mark ÍR stóð Berglind Magnúsdóttir sem áður hafði spilað með KR og Fjölni fyrr í sumar. Fyrir mistök skrifstofu KSÍ þann 9. september sl. fékk Berglind undanþágu fyrir keppnisleyfi fyrir félagaskipti markvarðar sem KSÍ afturkallaði í dag, því óleyfilegt er að spila með þremur liðum á einu ári.

Að sögn Geirs Þorteinssonar, framkvædmastjora KSÍ, er um augljós mistök að ræða af hálfu KSÍ en hausverkurinn sé hver beri ábyrgðina í þessu máli. Um það verði dómstóll KSÍ að skera úr en Þór KA kærði málið í síðustu viku. Geir segir að niðurstöðu sé að vænta eftir þrjár vikur en hægt er að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls KSÍ.

Unnsteinn Einar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs segir að þeir muni fara með málið alla leið. Ef KSÍ beri ábyrgðina þurfi hugsanlega að spila leikina aftur, en ef ábyrgðin sé hjá ÍR hljóti Þór KA vera dæmdur sigur í málinu. Það er því ljóst að það tekur nokkrar vikur að fá niðurstöðu í málið nema að KSÍ leggi áherslu að það fái flýtimeðferð í kerfinu en ljóst er að ÍR getur enn ekki fagnað endanlega sæti sínu í Landsbankadeild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×