Erlent

Mótmælendur verða teknir föstum tökum

Fjöldi fólks er nú fyrir utan þinghúsið í Búdapest í Ungverjalandi. Fólkið krefst þess að forsætisráðherra landsins segi af sér eftir að hann varð uppvís að lygum. Forsætisráðherran ætlar að taka mótmælendur föstum tökum.

Mikil átök brutust út víða í Ungverjalandi í nótt þegar þúsundir manna kröfðust þess að Ferenc Gyurcsany, forsætisráðherra landsins, segði af sér eftir að hann varð uppvís um lygar.

Átökin voru mest í höfuðborginn Búdapest þar sem mótmælendur ruddust inn í höfuðstöðvar Ríkissjónvarpsins eftir að hafa kveikt í fjölda bíla þar fyrir utan.

Á sunnudaginn spilaði Ríkisútvarpið í Ungverjalandi upptökur þar sem forsætisráðherrann játaði að hafa logið um efnahagsástandið í landinu. Á upptökunni ræðir Gyurcsany við flokksbróður sinn og segir: ,,Við höfum logið síðastliðið eitt og hálft ár. Við lugum á morgnana, við lugum á daginn og á nóttunni.''

Þá heyrist hann einnig segja að ríkisstjórnin hafi klúrað efnahagsmálunum. ,,Ekki lítið, heldur mjög mikið," segir Gyurcsany og heldur áfram og segir að ekkert annað Evrópuríki hafi gert eins heimskulega hluti.

Að minnsta kosti hundrað og fimmtíu almennir borgarar slösuðust í átökunum í nótt og um eitt hundrað lögreglumenn. Lögreglan beitti táragasi og vatni til að reyna að ná tökum á ástandinu en fólkið kastaði flöskum og steinum í átt að henni.

Gyurcsany sagði í morgun nóttina eina þá dekkstu í sögu landsins frá falli kommúnismans. Hann sagðist hafa íhugað það í þrjár mínútur á sunnudaginn að segja af sér vegna ummælanna en ekki talið sig hafa ástæðu til þess.

Dómsmálaráðherra landsins bauðst til að segja af í ljósi óeirðanna í nótt þar sem öryggismál í landinu heyra undir hann. Gyurcsany neitaði hins vegar að taka við uppsagnarbréfinu.

Gyurcsany sagði lögregluna taka mótmælendur föstum tökum og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að ná tökum á ástandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×