Erlent

Misvísandi viðbrögð við afsökunarbeiðni páfa

Benedikt páfi XVI.
Benedikt páfi XVI. MYND/AP

Benedikt páfi sextándi sagði í dag að sér þætti miður að ræða sín í Þýskalandi fyrir helgi hefði verið túlkuð sem móðgun við múslima. Páfi vitnaði til fjórtándualdar keisara sem sagði kenningar Múhameðs spámanns illar. Múslimar segja þörf á skýrari afsökunarbeiðni. Morð á ítalskri nunnu í Sómalíu er talið framið vegna orða páfa.

Páfi kom fram á svölum Gandolfo-kastala rétt fyrir utan Róm í morgun til að messa yfir og blessa þann mannfjölda sem saman var komin til að hlýða á hann. Hann notaði þá tækifærið til gera grein fyrir ummælum sínum í ræðu í Þýskalandi fyrir helgi þar sem hann vitnaði til fjórtándualdar keisara sem sagði kenningar Múhameðs spámanns illar og ómannúðlegar.

Páfi sagði að sér þætti miður að ræðu sinni hefði verið tekið sem móðgun. Ummæli keisarans samræmist ekki skoðunum páfa.

Páfi sagðist hafa viljað með ræðu sinni efna til opinskárrar og einlægrar umræðu um trúmál þar sem gagnkvæm virðing yrði sýnd. Hann sagðist vona að útskýringar sínar myndu duga til að lægja öldurnar.

Bandalag múslima í Egyptalandi var tvísaga í viðbrögðum sínum í dag. Upp úr hádegi sendu fulltrúar þess frá sér yfirlýsingu þar sem afsökunarbeiðnin var sögð fullnægjandi. Síðdegis var annað hljóð komið í strokkinn og páfi ekki sagður hafa beðist afsökunar með nægilega skýrum hætti. Einnig var spurt hvers vegna páfi hafi valið þessi orð til að vitna í ef þau lýsi ekki hans eigin skoðun.

Líklegt er talið að ítölsk nunna hafi verið myrt í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í morgun vegna ummæla páfa fyrir helgi. Hún var skotin til bana fyrir utan barnaspítala í borginni. Lífvörður hennar féll einnig í árásinni. Einn maður hefur verið handtekinn vegna málsins og annars er leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×