Erlent

Óttast um öryggi páfa

Óttast eru um öryggi Benedikts páfa XVI. vegna ummæla sem hann lét falla fyrr í vikunni sem hafa vakið mikla reiði meðal múslima. Eldsprengjum var kastað á tvær kirkjur í Nablus á Vesturbakkanum í gærkvöldi og í nótt. Páfagarður sendi frá sér yfirlýsingu fyrir stundu þar sem segir að páfa þyki miður að orð sín hafi sært múslima.

Í ræðu sinni í Háskólanum í Regensburg í Þýskalandi vitnaði páfi til orða Manuesl Paleologos annars, kristins keisara Austrómverska ríkisins á fjórtándu öld, þes efnis að Múhameð spámaður hefði aðeins fært heiminum illsku og miskunnarleysi. Talsmaður páfagarðs hefur sagt að það hafi alls ekki verið ætlun páfa að móðga nokkrun og hefur páfagarður sent frá sér yfirlýsingu nú í morgun þar sem páfi segir að sér þyki miður að ræða sín hafi verið túlkuð sem móðgun við múslima. Hann virði alla þá sem aðhyllist múhameðstrú og vonar að múslimar skilji innihald ræðu sinnar. Áður höfðu talsmenn páfa sagt að hann hafi viljað efla samkennd meðal trúarhópa.

Múslimar um allan heim eru æfir vegna ummælana og hafa fordæmt þau. Haft hefur verið eftir ónafngreindum heimildarmönnum í páfagarði í morgun að óttast sé um öryggi páfa vegna harðra viðbragða andlegra og veraldlegra leiðtoga múslima sem og almennings í löndum hins íslamska heims.

Ekki dregur úr áhyggjum að eldsprengjum var varpað á tvær kirkjur í Nablus á Vesturbakkanum í gærkvöldi og nótt. Smávægilegar skemmdir urðu á byggingunum. Samtökin sem hafa lýst árásunum á hendur sér segja þetta gert til að mótmæla ummælum páfa.

Lítil spenna hefur verið milli múslima og kristinn á svæðinu en óttast er að uppúr kunni að sjóða nú. Kristnir eru í töluverðum minnihluta á landsvæði Palestínumanna, aðeins nokkrir tugir þúsunda af þeim þremur milljónum sem búa á Vesturbakkanum, Gaza-svæðinu og í Austur-Jerúsalem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×