Erlent

Bush hótar að beita neitunarvaldi

George Bush, Bandaríkjaforseti, svarar spurningum fréttamanna í Washington í gær.
George Bush, Bandaríkjaforseti, svarar spurningum fréttamanna í Washington í gær. MYND/AP

Nefnd bandarískra öldungadeildarþingmanna hefur farið gegn vilja Bush Bandaríkjaforseta og styður löggjöf þar sem skilgreint er hvernig rétta beri yfir grunuðum hryðjuverkamönnum. Bandaríkjaforseti hefur heitið því að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum.

Bandaríkjaforseti styður annað frumvarp sem myndi leyfa það að réttað yrði fyrir herrétti yfir föngum í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu þar sem grunaðir hryðjuverkamenn eru í haldi. Forsetinn mætti sjálfur á fund nefndarinnar í gær til að leggja áherslu á mál sitt.

Fjölmargir Repúblíkanar eru andvígir því frumvarpi og styður Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra, þá í andstöðu sinni. Samkvæmt frumvarpi því sem forsetinn styður yrðu hertari yfirheyrsluaðferðir leyfðar, frekari njósnir einnig og rýmri heimildir til að halda grunuðum. Með þessu væri í raun verið að endurskilgreina það hvernig bandarísk stjórnvöld uppfylli ákvæði Genfar-sáttmálans um meðferð stríðsfanga.

Þessu er Powell andvígur og segir þetta í raun stefna lífi bandarískra hermanna á erlendri grundu í hættu og renna stoðum undir málflutning þeirra sem gagnrýna framferði Bandaríkjamanna og siðferði þeirra. Meðal þeirra sem eru andvígir hugmyndum forsetans er John McCain, sem barðist við Bush um útnefningu Repúblíkana fyrir forsetakosningarnar árið 2000. Búist er við að McCain sækist aftur eftir útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar eftir tvö ár.

Hálfur mánuður er þar til fulltrúadeild Bandaríkjaþings frestar fundum sínum vegna kosninga í nóvember. Miðla þarf málum fyrir þann tíma. Ef það tekst ekki verður alls óvíst með framtíð fanganna í Guantanamo-fangabúðunum og hvernig mál þeirra verða meðhöndluð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×