Innlent

Vonast eftir að viðræðum ljúki í næstu viku

Varnarviðræður Íslands og Bandaríkjanna hefjast á ný í dag í Washington. Sem fyrr hvílir leynd yfir efni samningaviðræðnanna en íslenskir ráðamenn vonast til þess að þeim ljúki jafnvel í næstu viku.

Fyrir hálfu ári tilkynnti Bandaríkjastjórn einhliða ákvörðun sína um brotthvarf varnarliðsins þann 1. október næstkomandi. Viðræðurnar í dag og á morgun eru lokahnykkurinn í samningalotu bandarískra og íslenskra stjórnvalda um framtíð varnarsamstarfs ríkjanna tveggja. Eins og kunnugt er hefur mikil leynd hvílt yfir viðræðunum og er engin breyting þar á.

En eftir því sem næst verður komist verður rætt um eignarhald á búnaði Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvell, frágang varnarsvæðisins og framtíðarsamstarf landanna tveggja í varnar-og öryggismálum á grundvelli varnarsamningsins frá 1951, en þó með einhverjum áherslubreytingum. Jafnframt verður rætt um nýja varnaráætlun Bandaríkjastjórnar sem og aukið samstarf íslenskra og bandarískra öryggisstofnana.

Frétttastofu NFS bárust ekki frekari upplýsingar um framgang viðræðanna fyrir hádegisfréttir en mun flytja nánari fréttir um leið og þær berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×