Erlent

Tvísýnar kosningar í Svíþjóð

Göran Persson, forsætisráðherra í Svíþjóð og formaður Jafnaðarmannaflokksins (t.v.), og Fredrik Reinfeldt, formaður Hægriflokksins.
Göran Persson, forsætisráðherra í Svíþjóð og formaður Jafnaðarmannaflokksins (t.v.), og Fredrik Reinfeldt, formaður Hægriflokksins. MYND/AP

Tvær skoðanakannanir sem birtar voru í morgun sýna að þingkosningarnar í Svíþjóð um næstu helgi verða þær tvísýnustu í rúman aldarfjórðung. Munur milli stjórnar og stjórnarandstöðu er innan skekkjumarka.

Svíar ganga að kjörborðinu á sunnudaginn og kjósa til þings. Kannanir sænsku könnunarfyrirtækjanna Synovate Temo og Sifo sýna að ekki hefur verið jafn mjótt á mununum síðan 1979. Samkvæmt báðum könnunum hefur stjórnarandstaðan örlítið forskot á ríkisstjórn Görans Persson, forsætisráðherra. Fylgi Jafnaðarmanna og stuðningsflokka mælist 46,9% annars vegar og 46,6% hins vegar. Fylgi fylkingar fjögurra mið- og hægri flokka mælist rétt rúm 48% í báðum könnunum.

Fylgi Þjóðarflokksins, annars stærsta stjórnarandstöðuflokksins, mælist um 8% sem er meira en búist var við eftir að njósnahneysli tengt flokknum komst í hámæli á dögunum. Þá komst upp um það að nokkrir starfsmenn flokksins hefðu brotist inn á lokað vefsvæði Jafnaðarmanna.

Blaðafulltrúar flokksins og formaður ungliðahreyfingar Þjóðarflokksins í Vestur-Svíþjóð eru sakaðir um að hafa brotist inn á síðuna. Afsagnar Lars Leijerborg, formanns flokksins, hefur verið krafist en hann hefur sagt að hann hafi ekki vitað af njósnunum fyrr en þær komust í hámæli. Per Jodenius, annar blaðafulltrúinn, staðfesti það í viðtali við sænska útvarpið.

Í fyrrakvöld gerði sænska lögreglan sprengju óvirka við kosningaskrifstofu Þjóðarflokksins við Gustav Adolfs-torg í Malmö. Svæðið var rýmt og sprengjan flutt burt og gerð óvirk. Ekki liggur fyrir hverjir komu sprengjunni fyrir en málið hefur valdið miklum óróa meðal flokksmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×