Erlent

Þýðingarmikið skref stigið á Srí Lanka

Stjórnvöld á Srí Lanka og uppreisnarmenn Tamíltígra hafa samþykkt að setjast niður til friðarviðræðna án nokkurra skilyrða. Upplýsingafulltrúi vopnaeftirlitsins á Srí Lanka segir þetta þýðingarmikið skref í átt til friðar.

Fulltrúi Japana í friðarferlinu staðfesti þetta í dag eftir fund um deiluna sem haldinn var í Brussel í dag. Að fundinum komu fulltrúar Japans, Noregs og Bandaríkjanna auk Evrópusambandsins en þessi þrjú ríki og ESB hafa lagt fé til uppbyggingar á Srí Lanka.

Þorfinnur Ómarsson, talsmaður norræna vopnahléseftirlitsins á Srí Lanka, segir yfirlýsinguna frá í dag þýðingarmikla. Báðir deiluaðilar séu reiðubúnir að koma aftur að samningaborðinu sem hafi ekki gerst síðan í febrúar. Ástandið síðan þá hafi versnað stöðugt og löngu komið í óefni. Nú sé kominn tími til að hætta átökum.

Að minnsta kosti 150 manns hafa fallið í átökum stjórnarhersins og Tamíltígra síðustu viku. Tamíltígrarnir drógu sig út úr friðarviðræðunum í apríl á þessu ári og til átaka milli fylkinganna kom í júlí. Nú er boðað að nýju til friðarviðræðna í október.

Þorfinnur segir erfitt að segja til um hvort til átaka komi fram að þeim tíma en það gangi varla að berjast þegar stefnt sé að friðarviðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×