Erlent

Háttsettir Hamas-liðar verði látnir lausir

MYND/AP

Dómstóll í Ísrael hefur fyrirskipað að nokkrir háttsettir liðsmenn Hamas-samtakanna, sem hafa verið í haldi Ísraela, verði látnir lausir. Mennirnir voru handteknir eftir að herskáir Palestínumenn rændu ísraelskum hermanni á Gaza-svæðinu í júní. Meðal hinna handteknu eru ráðherrar í heimastjórn Palestínumanna.

Eftir er að gefa upp hverjir hinna handteknu verði látnir lausir. Þeirra á meðal eru ráðherrar og þingmenn. Þeir verða þó aðeins látnir lausir gegn tryggingu og enn mögulegt að Ísraelar sæki þá til saka fyrir meint brot síðar.

Fréttir bárust af því í gær að samkomulag hefði náðst um eins konar þjóðstjórn Palestínumanna. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, og Ismail Haniyeh, forsætisráðherra í heimastjórninni, greindu báðir frá þessu.

Eitthvað hefur þó dregið úr gleðinni og vonum um skipan slíkrar stjórnar sem bæði Hamas-liðar og fulltrúar Fatah-hreyfingar Abbas, kæmu að. Í morgun sagði Haniyeh ekki koma til greina að semja við Ísraelsmenn. Líklegt er að Haniyeh færi fyrir nýrri stjórn og hefur hann áður sagt að hann hefði ekkert að athuga við það að Abbas semdi við Ísraelsmenn. Það staðfesti talsmaður Hamas í morgun. Samkomulag sem forsetinn gerði þyrfti síðan að fara í gegnum þingið.

Hamas-liðar felldu ísraelskan hermann í skotbardaga á Gaza-svæðinu, nálægt landamærunum að Ísrael, snemma í morgun. Herskár armur Hamas og önnur samtök segjast bera ábyrgð á dauða hermannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×