Erlent

Bráðabirgðastjórnin sögð hafa haldið velli

Milo Djukanovic, forsætisráðherra í bráðabirgðastjórn Svartfjallalands, lýsti í gærkvöldi yfir sigri í þingkosningum sem fóru fram í landinu í gær, þeim fyrstu frá því landið hlaut sjálfstæði fyrr í sumar.

Það voru 55,5% kjósenda sem samþykktu aðskilnað Svartfjallalands frá Serbíu í þjóðaratkvæðagreiðslu í maí. Ríkjasambandinu var síðan formlega slitið í byrjun júní og nokkrum dögum síðar lýstu Serbar yfir sjálfstæði, síðast þeirra lýðvelda sem Júgóslavía samanstóð af. Í lok júní samþykkti svo allherjarþing Sameinuðu þjóðanna að veita Svartfjallalandi aðild að Sameinuðu þjóðunum.

Síðan þá hefur bráðabirgðastjórn stýrt landinu en í gær fengu Svartfellingar í fyrsta sinn að kjósa sér þing. Fyrsta verkefni þeirra sem þar munu sitja verður að semja og síðan samþykkja stjórnarskrá þessa nýja ríkis.

Leiðtogar þeirra flokka sem leiða bráðabirgðastjórnina hafa heiti kjósendum því að leiða landið hratt og örugglega inn í Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið fái þeir umboð til þess. Leiðtogi sambandssinna, sem eru nú í stjórnarandstöðu, segist hins vegar ætla að vinna náið með Serbum þegar kemur að inngöngu í ESB og NATO.

Djucanovic segir flokk sinn hafa fengið hreinan meirihluta í kosningunum. Endanleg úrslit hafa ekki verið kynnt en því er spáð að flokkur Djucanovic hafi fengið nauman meirihluta, það er 41 þingsæti af 81. 70% kosningabærra Svartfellinga greiddu atkvæði en þeir eru 485 þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×