Erlent

Fimm ár frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin

Í dag eru fimm ár liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin sem kostuðu um þrjú þúsund manns lífið. George Bush Bandaríkjaforseti og kona hans Laura tóku þátt í minningarathöfn um þá sem fórust í New York í gær.

Það var upp úr hádegi þann ellefta september 2001 sem tveimur farþegaflugvélum var flogið á Tvíburaturnana svokölluðu í World Trade Center í New York í Bandaríkjunum. Vélunum hafði verið rænt og flogið á turnana. Þriðju vélinnil var síðan flogið á Pentagon, höfuðstöðvar varnarmálaráðuneytisins Bandaríska, í Washington. Fjórða vélin hrapaði síðan á engi í Pennsylvaníu.

George Bush, Bandaríkjaforseti, og kona hans Laura tóku þátt í minningarathöfn um þessi voðaverk í New York borg í gærkvöldi. Meðal þeirra sem einnig voru viðstaddir voru George Pataki, ríkisstjóri í New York, Michael Bloomberg, borgarstjóri, og Rudy Giuliani, sem var borgarstjóri í New York fyrir fimm árum.

Forsetahjónin lögðu blómsveiga á tvær tjarnir sem eru nú þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Því var haldin guðsþjónusta í kirkju sem stendur beint á móti þeim stað þar sem trunarnir tveir gnæfðu yfir borginni. Því næst heimsótti Bandaríkjaforseti slökkviliðs- og björgunarmenn sem vinna á þeirri slökkvistöð sem stendur næst þeim stað þar sem byggingarnar stóðu.

Bush mun síðar í dag heimsækja björgunar- og slökkviliðsmenn sem tóku þátt í björgunaraðgerðum fyrir fimm árum. Því næst halda forsetahjónin til Washington þar sem þau taka þátt í athöfn við varnarmálaráðuneytið. Síðan fara þau til Pennsylvaníu og minnast þeirra sem fórust með vélinni sem hrapaði þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×