Erlent

Tveir glæpir framdir 11. september 2001

Tveir glæpir voru framdir með hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin þann 11. september 2001. Mörg þúsund almennir borgarar voru myrtir og glæpurinn síðan sagður framinn í nafni múhameðstrúar. Þetta segir Mohammad Khatami, fyrrverandi Íransforseti, sem er í heimsókn í Bandaríkjunum.

Svo háttsettur fulltrúi Írana hefur ekki heimsótt Bandaríkin í aldarfjórðung. Khatami ávarpaði í gærkvöldi ráðstefnu samtaka sem vinna að því að bæta samskipti milli Bandaríkjanna og íslamskra ríkja. Í ræðu sinni í gær sagði Khatami að afleiðing hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin fyrir rétt tæpum fimm árum væri ofsahræðsla við íslamska siði, menningu og trú.

Khatami hvatti bandaríska múslima til að sýna löndum sínum hvað sé satt og rétt um trú þeirra og hvað ekki. Khatami, sem lét af embætti í fyrra þegar Mahmoud Ahmadinejad var kjörinn í hans stað, var fyrsti erlendi leiðtoginn sem fordæmdi hryðjuverkin 2001. Hann var álitinn umbótamaður í þau tvö kjörtímabil sem hann sat á valdastól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×