Erlent

Blair í Ísrael

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, virðist ekki láta vandræði heima fyrir slá sig út af laginu og hélt í heimsókn til Ísraels í dag. Skömmu áður flutti hann ræðu í Lundúnum þar sem hann hvatti til einingar innan Verkamannaflokksins.

Blair ávarpaði tíu ára afmælisráðstefnu svokallaðra Framfarasamtaka í Bretlandi. Ræðan er hans fyrsta síðan hann greindi frá því fyrir helgi að hann myndi láta af leiðtogaembætti og hverfa úr Downing-stræti tíu innan árs. Dagana áður hafði komið fram sú krafa frá mörgum flokksmönnum að Blair tímasetti margboðað brotthvarf sitt af valdastól.

Blair sagði mikilvægt að félagar í Verkamannaflokknum legðu niður innanflokksdeilur og mótuðu stefnu til framtíðar ef sigur ætti að nást í næstu kosningum.

Blair sagði þrjú ár til kosninga og því nægur tími til að endurskipuleggja flokkin. Það sé þó aðeins hægt með þvi að hegða sér eins og fyrir kosningarnar árið 1997 þegar flokkinn hungraði í völd. Þá hafi liðsmenn hans skilið að fólkið skipti mestu máli en ekki stjórnmálamenn.

Það var svo síðdegis í dag sem Blair kom til Ísrael til viðræðna við ráðamenn þar. Þar ræddi hann við Ehud Olmert, forsætisráðherra, um friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs, ástandið í Líbanon og kjarnorkuáætlun Írana.

Hvað kjarnorkudeiluna við stjórnvöld í Teheran varðar þá átti Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, fund með Ari Larijani, aðal samningamanni Írana í kjarnorkudeilunni, í Austurríki í dag. Vesturveldin segja þennan fund síðasta möguleika Írana til að forðast refsiaðgerðir ef þeir hætti ekki auðgun úrans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×