Erlent

Blair hvetur til einingar

Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu fyrir utan fundarstað í Lundúnum í morgun. Þar inni flutti Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sína fyrstu ræðu eftir að hann tilkynnti fyrir helgi að hann myndi víkja sem formaður Verkamannaflokksins og forsætisráðherra innan árs.

Blair ávarpaði tíu ára afmælisráðstefnu svokallaðra Framfarasamtaka í Bretlandi. Í ræðu sinni sagði hann mikilvægt fyrir félaga í Verkamannaflokknum að móta stefnu til framtíðar og leggja niður innanflokksdeilur ef sigur ætti að nást í næstu kosningum. Flokkurinn yrði að endurskilgreina sig og markmið sín og persónulegum árásum yrði að linna. Skilgeina þyrfti með skýrum hætti stefnu Verkamannaflokksins í öryggismálum nú þegar barist sé gegn hryðjuverkum, huga þurfi að lífeyrismálum eldri borgara og ekki síst umhverfismálum.

Til átaka hefur komið innan flokksins í vikunni og margir flokksmenn krafist þess að Blair tilgreindi hvenær hann ætlaði að hætta til að hleypa nýjum flokksleiðtoga að. Það var svo á fimmtudaginn sem forsætisráðherrann sagði næstu ræðu sína á flokksþingi síðar í þessum mánuði verða sína síðustu sem leiðtogi flokksins. Margir flokksmenn voru þá ósáttir við að hann skildi ekki tímasetja brotthvarf sitt með skýrari hætti.

Stjórnmálaskýrendur hafa síðan þá sagt að svo virðist sem Blair og Gordon Brown, fjármálaráðherra og líklegasti arftaki Blairs, hafi komist að samkomulagi. Charles Clark, fyrrverandi innanríkisráðherra, hefur gagnrýnt Brown harðlega og sagt hann hafa skapað glundroða í flokknum. Hann segir Brown ekki geta gengið út frá því sem vísu að hann verði næsti leiðtogi.

Þegar bílalest Blairs kom að fundarstað í morgun kom til smávægilegra átaka milli andstæðinga Íraksstríðsins og lögreglu. Engan sakaði í þeim átökum svo vitað sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×