Erlent

Mannskæð árás í Kabúl

Hermenn á vettvangi í Kabúl í dag.
Hermenn á vettvangi í Kabúl í dag. MYND/AP

Að minnsta kosti 16 manns féllu og fjölmargir særðust þegar bílsprengja sprakk nálægt sendiráði Bandaríkjamanna í Kabúl, höfuðborg Afganistans í morgun. Skömmu síðar komu herforingar Atlandshafsbandalagsins saman til fundar í Póllandi til að ræða fjölgun í fjölþjóðlegu herliði í Afganistan.

Á sama tíma og herforingjarnir funduðu í Varsjá ræddust við þeirJaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þar sem fjölgun í herliðinu bar einnig á góma.

Hæstráðandi hershöfðingi NATO í Afganistan fór þess á leit í gær við ríki bandalagsins að þau fjölguðu í herliði sínu því Talíbanar hafi gert fjölmargar mannskæðar árásir á herlið síðustu daga og vikur. Árásirnar hafi ekki verið fleiri eða skæðari síðan Talíbönum var komið frá völdum árið 2001. Um það bil tuttugu þúsund hermenn á vegum NATO eru nú í Afganistan og álíka margir á vegum Bandaríkjamanna.

Árásin í dag er með þeim mannskæðustu sem orðið hafa síðustu vikur. 16 féllu og um 30 særðust. Bílsprengjan sprakk þar sem bílalest Bandaríkjahers fór um nálægt sendiráðinu.

Háttsettir herforingjar segja átökin í Afganistan nú orðin mun skæðari en í Írak. Fjölmargar sprengjuárásir hafa verið gerðar í Afganistan síðustu vikur en fátítt er að jafn öflugar sprengjur springi í miðborg Kabúl.

Hernaðarsérfræðingar segja það muni reynast Atlandshafsbandalagsríkjum erfitt að finna viðbótar hermenn til að senda til Afganistan þar sem þegar sé teygt um of á hernaðargetu flestra ríkjanna. Herlið NATO tók við stjórn herliðsins í Afganistan úr höndum Bandaríkjamanna í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×