Erlent

Engin tengsl við al Qaeda

George Bush, Bandaríkjaforseti.
George Bush, Bandaríkjaforseti. MYND/AP

Engin gögn fyrirfinnast sem styðja þær fullyrðingar að tengsl séu á milli Saddam Hússein, fyrrverandi Íraksforseta, og leiðtoga al Qaeda hryðjuverkasamtakanna í Írak fyrir upphaf Íraksstríðsins 2003. Þetta kemur fram í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, sem unnin var í fyrra og Öldungadeild Bandaríkjaþings birti í dag.

Í aðdraganda Íraksstríðsins var látið að því liggja og því jafnvel haldið fram fullum fetum að tengsl væru á milli forsetans fyrrverandi og samtakanna. George Bush Bandaríkjaforseti sagði fyrir nokkru að sú staðreynd að Abu Musab al-Zarqawi, látinn leiðtogi al Qaeda, hefði búið í Írak fyrir stríðið renndi stoðum undir fullyrðingar um tengsl. Demókratar á þingi segja skýrsluna veikja rök fyrir innrásinni í Írak og er það sem fram kemur í henni sagt áfall fyrir Bandaríkjaforseta.

Stjórnmálaskýrandi breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að Bush hafi ítrekað reynt að tengja Íraksstríðið, sem flestir Bandaríkjamenn telji nú hafa verið mistök, við svokallað stríð gegn hryðjuverkum, sem þjóðin styðji. Þessi skýrsla er nú birt um leið og Bandaríkjaforseti er að flytja ræður í tengslum við ellefta september í næstu viku þegar fyrr ár eru liðin frá hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin, kveikjunni að stríðinu gegn hryðjuverkum.

Það var sú nefnd öldungadeildar sem fjallar um leyniþjónustumál sem birti skýrsluna í dag en hún er seinni liður í umfjöllun nefndarinnar um þær upplýsingar sem lágu fyrir í aðdraganda innrásarinnar. Í fyrri hlutanum var fjallað um þau mistök sem leyniþjónustan hafi gert í mati sínum á vopnaáæltun Íraka.

Samkvæmt skýrslunni sem birt var í dag var Saddam Hússein tortrygginn í garð al Qaeda og leit á öfgamenn meðal múslima sem ógn við valdi sínu. Hann mun hafa hafnað öllum beiðnum al Kaída um hjálp. Í skýrslunni segir að himinn og haf hafi verið á milli hugmyndafræði íraskra stjórnvalda annars vegar og al Kaída hins vegar.

Tony Snow, talsmaður Bandaríkjaforseta, segir ekkert nýtt í þessari skýrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×