Erlent

Calderon réttkjörinn forseti Mexíkó

Felipe Calderon og eiginkona hans, Margarita Zavala, fögnuðu niðurstöðunni.
Felipe Calderon og eiginkona hans, Margarita Zavala, fögnuðu niðurstöðunni. MYND/AP

Sérskipaður dómstóll í Mexíkó úrskurðaðið í dag að Felipe Calderon, frambjóðandi hægrimanna, væri réttkjörinn forseti landsins. Ætla má að vinstrimenn sætti sig ekki við þessa niðurstöðu enda hefur frambjóðandi þeirra sagt kosningasvik hafa tryggt Calderon sigur.

Það var í dag sem sérskipaður dómstóll, sem ætlað var að skera úr um allan vafa í tengslum við framkvæmd kosninganna, sendi frá sér bráðabirgðaniðurstöður sem sýndu að Calderon hefði sigrað í forsetakosningunum í byrjun júli en með naumindum þó. Aðeins tvö hundruð þrjátíu og fjögur þúsund atkvæði hafi á endanum skilið hann, og Andres Manuel Lopez Obrador, frambjóðanda vinstrimanna að.

Það var svo síðdegis sem sjö dómarar sem skipaður voru í dómstólinn greiddu atkvæði um hvort lýsa ætti Calderon réttkjörinn forseta eða ekki. Lopez Obrador hefur frá því fyrstu tölur lágu fyrir sagt brögð í tafli og fór fram á að öll atkvæði yrðu talin að nýju. Það var þó ekki gert, aðeins endurtalið í nokkrum kjördæmum. Lopez Obrador og Calderon háðu hatramma baráttu um embættið fyrir kosningarnar og vildi hvorugur játa sig sigraðann þegar ljóst var að mjótt væri á mununum.

Stuðningsmenn Lopez Obrador hafa látið í sér heyra víðsvegar um Mexíkó síðustu daga og þegar niðurstaðan lá fyrir í dag var þegar boðað til frekari mótmæla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×