Erlent

Níu grunaðir hryðjuverkamenn handteknir í Danmörku

Danska leyniþjónustan hafði fylgst með hópnum sem handtekinn var um nokkra hríð. Talsmenn leyniþjónustunnar segjast hafa mjög sterkar vísbendingar um að mennirnir hafi undanfarna mánuði viðað að sér efni til sprengjugerðar. Því var látið til skarar skríða klukkan tvö í nótt, mennirnir níu handteknir og leit gerð á heimilum þeirra. Þremur þeirra var síðan sleppt, en sex komu fyrir dómara síðdegis í dag, grunaðir um ætlaða hryðjuverkastarfsemi. Samkvæmt nýlegum lögum um varnir gegn hryðjuverkum gætu þeir átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsisdóm.

Lene Espersen, dómsmálaráðherra Dana, segir þetta eitt það alvarlegasta sem nokkru sinni hafi gerst í Danmörku. Espersen sagðist ekki geta greint frá því hvar átti að fremja hryðjuverkin, né heldur hvað hefði fundist við húsleitina. Leyniþjónustan hefði hins vegar ekki getað beðið lengur með að ráðast til atlögu, þar sem undirbúningur hryðjuverkanna hefði verið á lokastigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×