Innlent

Ósætti með að tillaga var ekki rædd í menntaráði

Samfylkingin segir meirihlutann í borgarstjórn hafa beitt fljótfærnislegum vinnubrögðum þegar tillaga um að borgin hefji undirbúning á rekstri framhaldsskóla í tilraunaskyni var felld í menntaráði í gær, án umræðu. Formaður menntaráðs segir vinnuaðferð gamla meirihlutans, að fresta sífellt tillögum, einfaldlega liðna tíð.

Samfylkingin lagði fram þá tillögu á fundi menntaráðs í gær að hefja undirbúning þess að Reykjavíkurborg yfirtaki rekstur framhaldsskóla borgarinnar sem „tilraunasveitarfélag", eins og það er orðað. Fulltrúar meirihlutans felldu tillöguna, og segir Stefán Jón Hafstein, fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu, að það hafi verið gert án umræðu, og án þess að formaður menntaráðs hafi viljað fresta tillögunni milli funda til nánari athugunar.

Formaðurinn, Júlíus Vífill Ingvarsson, gefur lítið fyrir þessar staðhæfingar Stefáns Jóns. Hann segir að sá siður að fresta fjölda tillagna, og taka þannig ekki afstöðu til þeirra - sem m.a. hafi tíðkast þau ár sem Stefán var formaður menntaráðs - séu vinnubrögð sem Júlíusi hugnist ekki.

Aðspurður hvers vegna meirihlutinn í borgarstjórn vilji ekki að Reykajvíkurborg hefji undirbúning að rekstri framhaldskóla brogarinnar segir Júlíus Vífill að verið sé að vinna að stofnun starfshóps sem hafi það hlutverk að flýta fyrir þeim nemendum, sem þess eigi kost, á síðustu árum grunnskólanámsins. Þetta sé í forgangi núna, eins og rætt hafi verið á síðasta fundi menntaráðs, og Stefán viti þ.a.l. fullvel af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×