Erlent

Hafði fylgst með mönnunum um nokkurt skeið

Níu ungir menn voru handteknir í Óðinsvéum í Danmörku í nótt, grunaðir um skipulagningu hryðjuverka. Danska leyniþjónustan hafði fylgst með mönnunum um nokkurt skeið.

Mennirnir níu búa allir í Vollsmose, úthverfi Óðinsvéa þar sem sextíu prósent íbúa eru af erlendum uppruna. Lars Findsen, yfirmaður leyniþjónustunnar sagði í samtali við dagblaðið Berlingske Tidende að hún hefði sterkar vísbendingar um að mennirnir hefðu viðað að sér efni til sprengjugerðar undanfarna mánuði. Lögreglan hefði látið til skarar skríða nú í nótt, vegna þess hversu erfitt reyndist að tímasetja ætluð hryðjuverk.

Pétur Hannesson er við nám í Óðinsvéum og segist ekki fara inn í Vollsmose-hverfið nema hann nauðsynlega þurfi.

Ekki hefur verið upplýst hvar mennirnir ætluðu sér að fremja hryðjuverkin né heldur hversu langt undirbúningur þeirra var kominn. Mennirnir eru allir undir þrítugu og verður krafist gæsluvarðhalds yfir þeim í dag.

Nú rétt fyrir hádegið upplýsti Lene Espersen, dómsmálaráðherra Dana, að flestir mannanna sem handteknir voru í nótt væru danskir ríkisborgarar. Að minnsta kosti einn þeirra er danskur að uppruna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×