Erlent

Byssumaður myrðir ferðamann í Jórdaníu

Lögreglumenn við hringleikahúsið eftir morðárásina.
Lögreglumenn við hringleikahúsið eftir morðárásina. MYND/AP

Erlendir ferðamenn í Jórdaníu eru felmtri slegnir eftir að byssumaður varð einum ferðamanni að bana og særði fimm þegar skotið var á hóp ferðalanga í höfuðborginni, Amman í dag. Árásamaðurinn var þegar handtekinn en hann lét til skarar skríða fyrir utan hringleikahús sem ferðamenn sækja í hópum á sumri hverju.

Ferðamaðurinn sem féll fyrir hendi morðingjans var Breskur. Tvær breskar konur særðust í árás byssumannsins auk Hollendings, ástralskrar konu og annarrar konur frá Nýja Sjálandi. Maðurinn hleypti af byssu sinni um miðjan dag þar sem ferðamenn voru samankomnir í stórum hóp að skoða hringleikahúsið sem er sagt frá tímu Rómarveldis og stendur í miðborg Ammans.

Vitni segja ekki hægt að fullyrða að hann hafi verið íraskur þó hreimur hans hafi bent til þess. Hann mun hafa kallað upp fyrir sig að guð væri voldugur og síðan skotið á mannfjöldann fimmtán skotum. Hann mun hafa notað þrjú skothylki til þess og síðan reynt að flýja af vettvangi. Lögregla umkringdi hann hins vegar og tók höndum. Árásarmaðurinn er á fertugsaldir. Yfirvöld segja ekkert benda til þess að árásin hafi verið þaulskipulögð en hún sé álitin hryðjuverk þar til annað komi í ljós.

Ashleig Blair, ástralska konan sem særðist í árásinni, segist hafa gengið upp tröpur í hringleikahúsinu þegar maðurinn hafi komið aftan að hópnum og byrjað að hleypa af byssu sinni. Hún muni einungis eftir því að hafa séð vin sinn hníga niður en í sömu andrá hafi verslunareigandi kallað hana og hluta hópsins inn í búð sína þar sem þau hafi heyrt skothríðina.

Fjölmargar árásir hafa verið gerðar á ferðamenn í Jórdaníu síðustu misserin en stjórnvöld þar í landi eru dyggir bandamenn bandarískra stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×