Erlent

Íranar vilja semja en ekki hætta að auðga úran

Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur eftir forseta Írans að Íranar séu reiðubúnir að semja um kjarnorkumál, en að þeir muni ekki hætta við að auðga úrans áður en samningaviðræður hefjast. Kofi Annan hitti Mahmoud Ahmadinejad í morgun. Afstaða Írana virðist ekkert hafa breyst; þeir eru reiðubúnir að semja en ekki að hætta auðgun úrans áður en samningaviðræður hefjast, eins og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur krafist. Evrópusambandið vill gefa Írönum tvær vikur til að útskýra fyrirætlanir sínar en Bandaríkjamenn hafa þrýst á um að Íranir verði beittir refsiaðgerðum. Annan notaði líka tækifærið til að skamma Írana - og forsetann sérstaklega - fyrir að afneita helförinni. Nýlega héldu Íranar sýningu á teiknimyndum sem gera grín að helför gyðinga í síðari heimsstyrjöld og á fréttamannafundi í morgun sagði Annan að slíkar myndir væru ósmekklegar. Ein jákvæð niðurstaða fundarins í morgun var að Ahmadinejad staðfesti stuðning Írana við ályktun Öryggisráðsins um vopnahlé í Líbanon. Ályktunin gerir meðal annars ráð fyrir því að Íranir hætti að útvega Hisbolla samtökunum vopn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×