Erlent

Ítalskir hermenn koma til Líbanons

Ítalskir hermenn komu til Suður-Líbanons í dag til að styrkja friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna þar. Með því glæðast vonir um að takast megi að koma í veg fyrir að átök brjótist út að nýju í Líbanon. Ítölsku hermennirnir komu af hafi á gúmbátum og í þyrlum eftir stutta ferð yfir Miðjarðarhafið um borð í flugmóðurskipinu Giuseppe Garibaldi, eina flugmóðurskipi Ítala. Fyrir er í Líbanon um tvö þúsund manna lið Sameinuðu þjóðanna sem hefur beðið eftir liðsauka síðan samið var um vopnahlé í Líbanon fjórtánda ágúst. Ætlunin er að friðargæsluliðar verði alls um fimmtán þúsund. Þegar dagarnir fóru að líða án þess að liðsauki kæmi, fóru menn að óttast að átök kynnu að brjótast út á ný. Áætlað er að alls komi 880 ítalskir hermenn til hafnarborgarinnar Tírus í dag auk tvö hundruð hermanna sem fara í flugi til Beirút. Um er að ræða hermenn, verkfræðinga, herlögreglu og aðra sérfræðinga auk brynvarinna bíla og annarra hergagna. Flestir friðargæsluliðanna sem bætast í liðið á næstu vikum verða frá Evrópuríkjum, alls um 6.900 manns. Yfirmaður friðargæsluliðsins í Líbanon, franski hershöf´ðinginn Alain Pelegrini, segir að vopnahléð sé brothætt og þegar hafi ákveðin brot á því átt sér stað. Því sé ekki seinna vænna að styrkja friðargæsluliðið. Frakkar leiða liðið fram að áramótum, en þá taka Ítalir við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×