Erlent

Umsátursins í Beslan minnst

Mynd frá árinu 2004 sem sýnir lík af tugum barna sem létust í umsátrinu í Beslan.
Mynd frá árinu 2004 sem sýnir lík af tugum barna sem létust í umsátrinu í Beslan. MYND/AP

Grátandi foreldrar og þungbúnir embættismenn minntust þess í dag að tvö ár eru liðin frá einni blóðugustu hryðjuverkaárás í Rússland þegar 333 manns létu lífið í umsátrinu um barnaskólann í Beslan.

Kerti loguðu undir myndum af þeim sem létu lífið í umsátrinu fyrir tveimur árum. Rústir barnaskólans í Beslan standa enn eins og skilið var við þær eftir baráttuna við 32 tsjetsjenska aðskilnaðarsinna sem héldu 1.128 nemendum, kennurum og foreldrum í gíslingu í þrjá daga án þess að þau fengju vott eða þurrt.

Rúmlega helmingur þeirra 333 sem létust voru börn en flestir gíslanna létust í tveimur kröftugum sprengjum og skotbardögum í kjölfarið þegar öryggissveitir reyndu að bjarga gíslunum úr haldi mannræningjanna. Sá eini mannræningjanna sem ekki lét lífið í hildarleiknum var í vor dæmdur í lífstíðarfangelsi og sá sem talinn er skipuleggjandi árásanna, Shamil Basayev, lét lífið í sumar þegar bíll sem hann var í sprakk í loft upp.

Aðstandendur vöruðu rússnesk yfirvöld við því að vera við minningarathöfnina þar sem margir eftirlifenda telja að yfirvöld hafi stöðvað rannsóknina og reyni að fela óþægilegar staðreyndir. Sprengjusérfræðingur, sem var einn meðlima þingnefndar sem rannsakaði atburðarásina, klauf sig síðar út úr nefndinni og heldur því fram að sprengingarnar tvær hafi ekki verið á vegum hryðjuverkamannanna heldur hafi öryggissveitir varpað sprengjum á húsið utan frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×