Erlent

Funda vegna uppbyggingarstarfs í Líbanon

MYND/AP

Milljarða króna þarf til að koma Líbanon aftur á réttan kjöl. Hjálparstofnanir sem funda nú í Stokkhólmi ákalla þjóðir heims um að láta fé af hendi rakna til uppbyggingarstarfs í landinu.

fulltrúar 60 ríkisstjórna og hjálparstofnana vonast til að safna jafnvirði 35 milljarða íslenskra króna á fundi sínum í Stokkhólmi, til þess að hægt sé að byrja umsvifalaust á uppbyggingarstarfi í Líbanon. Víða er pottur brotinn, það þarf að endurbyggja vegakerfi, brýr og heimili sem eyðilögðust í rúmlega mánaðar löngum átökum Ísraela og Hisbollah. Vopnahléð hefur nú haldið í rúmar tvær vikur en enn vara sendierindrekar Sameinuðu þjóðanna við því að ástand sé viðkvæmt í Líbanon og lítið þurfi út af að bera.

Loforð um fjárhagsaðstoð eru þegar byrjuð að berast en mikið vantar upp á og treysta menn á að væn framlög berist frá stórum þátttakendum í fundinum. Meðal verkefna sem verða skipulögð eru að skipuleggja ný störf, byggja upp húsnæði fyrir fólk sem er að snúa aftur til heimkynna sinna og bæta félagslegt stoðkerfi landsins. Áætlað er að um ein milljón manna hafi flúið heimili sín í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×