Erlent

Stjórnarhernum á Srí Lanka um að kenna

MYND/AP

Yfirmaður norræna vopnahléseftirlitsins á Srí Lanka kennir stjórnarher landsins um morð á sautján alþjóðlegum hjálparstarfsmönnum fyrr í mánuðinum.

Það var sjöunda ágúst sem fimmtán starfsmenn frönsku hjálparsamtakanna Action Against Hunger fundust myrtir í höfuðstöðvum samtakanna í bænum Muttur í norð-austur hluta landsins. Tveir starfsfélagar þeirra fundust svo myrtir í bíl skammt frá degi síðar. Ekki var víst á þeim tíma hvort stjórnarherinn eða uppreisnarmenn Tamíltígra hefðu staðið að baki morðunum.

Norræna vopnahléseftirlitið sendi síðan í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem stjórnarhernum er kennt um morðin. Þorfinnur Ómarsson, talsmaður eftirlitsins, segir þetta mat Ulfs Henrikssons sem segi herinn bera ábyrgð á ódæðunum. Ýmislegt bendi til þess og eingin rök hafi verið færð gegn því. Herinn hafi meinað fulltrúum eftirlitsins aðgang að svæðinu svo dögum skipti. Það bendi til þess að herinn hafi eitthvað að fela að mati Ulfs.

Auk þess hafi herinn verið á svæðinu þegar ódæðin voru framin, það liggi fyrir. Varla sé því hægt að sjá að nokkur annar hafi framið ódæðin á þessu svæði nema með vitund og vilja stjórnarhersins.

Stjórnvöld hafa neitað því að hafa átt þátt í morðunum og heitið ítarlegri rannsókn.

Norræna eftirlitið hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að árás Tamíltígra á rútu sem varð nærri sjötíu að bana í júní hafi brotið gegn því vopnahlé sem sé í gildi. Stjórnvöldum er einnig kennt um röð svipaðara árása á svæðum uppreisnarmanna frá því í apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×