Erlent

Minningarathöfn í New Orleans

Minningarathöfn var haldin í New Orleans í Bandaríkjunum í dag en ár er liðið síðan fellibylurinn Katrín reið yfir landsvæði Mexíkóflóa og olli 1600 dauðsföllum og mikilli eyðileggingu.

Þúsundir fjölskyldna búa enn í hjólhýsum og bíða þess að fá fjárhagsaðstoð til að endurreisa heimili sín eftir að Katrín lagði þau í rúst á síðasta ári. 500.000 íbúar bjuggu í New Orleans áður en fellibylurinn reið yfir en einungis helmingur þeirra hefur snúið aftur. Aðeins er búið að opna um helming spítala í borginni og rafmagn er aðeins komið á að hluta til. Einnig hefur glæpatíðni aukist til muna. Þrátt fyrir að þónokkur uppbygginging hafi átt sér stað er ljóst að það mun taka mörg ár að endurreisa borgina og koma lífi fólks í samt horf á ný.

George Bush, forseti Bandaríkjanna og kona hans tók þátt í athöfninni og báðu bænir með borgarbúum. Könnun sem gerð var meðal Bandaríkjamanna fyrr í mánuðinum sýnir að tveir þriðju þeirra eru enn ósáttir við það hvernig forsetinn og stjórnvöld héldu á málum eftir fellibylinn. Eftir athöfnina fékk Bush sér pönnukökur á matsölustað. Þjónustustúlkan spurði hann blákalt hvort hann myndi snúa baki við íbúum New Orleans. Forsetinn svaraði að bragði að það myndi hann ekki gera aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×