Erlent

Slapp lifandi undan lest

Það þykir ganga kraftaverki næst að 26 ára gamall heimilislaus Íslendingur hafi sloppið lifandi þegar honum var hrint fyrir lest á Nörreport-stöðinni í Kaupmannahöfn í gær.Það varð honum til happs að hann lenti milli brautarteina þannig að lestin keyrði ekki beint yfir hann.

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús, en hann hlaut skurð á höfði auk nokkurra skráma. Hann dvaldi á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn í nótt og var útskrifaður um hádegisbilið í dag. Maðurinn segir annan heimilislausan mann hafa hrint sér fyrir lestina.

Manninum var ýtt fyrir lestina rétt áður en lest kom aðvífandi og síðan lagði sá sem ýtti honum fram af á flótt í leigubíl.

Íslendingurinn segist þekkja hann að öllum líkindum af götunni en veit ekki hvað hann heitir né hvað olli því að hann ýtti honum fyrir lestina.

Lögreglan segir manninn hafa verið einstaklega heppinn að sleppa lifandi frá þessu en það hafi orðið honum til lífs að hann lenti milli teina.

Árásarmannsins er nú leitað en hann er sagður á fertugsaldri, 180 til 185 cm á hæð og klæddur í dökka hettupeysu.

Svipaður atburður átti sér stað í júlí á þessari sömu lestarstöð við Nørreport í Kaupmannahöfn, þegar tveir menn hrintu manni niður á járnbrautarteinanna og vörnuðu honum uppgöngu á lestarpallinn með því að sparka í andlit hans. Lestarstjóranum tókst að stöðva lestina í tíma, auk þess sem vegfarendur náðu að hjálpa manninum upp á lestarpallinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×