Erlent

Einn lifði flugslysið af

Einn komst lífs af þegar flugvél frá Delta flugfélaginu með fimmtíu manns innanborðs hrapaði í Kentucky í Bandaríkjunum í dag. Flugvélin hrapaði skömmu eftir flugtak frá flugvellinum í Lexington. Ekkert er sagt benda til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Flugvélin var af gerðinni Bombardier CRJ tvö hundruð, og í eigu Comair, undirfélags Delta flugfélagsina. Hún var á leið frá Blue Grass flugvelli í Lexington til Atlanta og hrapaði skömmu eftir flugtak. Fregnir herma að flugvélin hafi verið nokkuð heilleg eftir hrapið en þá hafi eldur kviknað í henni. Fjörutíu og sjö farþegar og þriggja manna áhöfn var um borð. Einn maður er sagður hafa sloppið lifani úr slysinu en hann mun vera mikið slasaður.

Talsmaður samgönguyfirvalda í Bandaríkjunum segir ekkert benda til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Ekki liggur þó fyrir á þessari stundu hvað olli því að flugvélin hrapaði. Allt bendir til þess að þetta sé versta flugslys í Bandaríkjunum í tæp sex ár. Talsmaður lögreglunnar í Lexington segir verið að kanna hvort vélin hafi farið á loft á rangri flugbraut.

Don Bornhorst, forstjóri Comair, staðfesti síðan á blaðamannafundi að einn hefði farist með flugvélinni. Comair keypti vélina í janúar 2001 og að sögn Bornhorst hafði hún verið yfirfarin samkvæmt reglum og haldið við eins og vera ber.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×