Erlent

Fréttmenn Fox látnir lausir

Mynd/AP

Mannræningjar á Gaza-svæðinu hafa látið tvo starfsmenn Fox fréttastöðvarinnar bandarísku lausa. Þeir hafa verið í haldi mannræningja síðan um miðjan mánuðinn

Ekkert heyrðist frá mannræningjunum fyrr en í miðri síðustu viku. Þar til þá var ekkert vitað um afdrif fréttamannsins Steve Centanni frá Bandaríkjunum og myndatökumannsins Olaf Wiig frá Nýja Sjálandi.

Myndband var síðan birt á miðvikudaginn þar sem mátti sjá að mennirnir voru ekki illa haldnir. Þá kom í ljós að þeir voru í haldi áður óþekktra samtaka herskárra Palestínumanna sem kölluðu sig Stórfylkingu heilags stríðs. Með því fyldu skilaboð frá samtökunum þar sem Bandaríkjamönnum var gefinn þriggja sólahringa frestur til að láta lausa þá múslima sem þeir hafi í haldi víðsvegar um heim.



Ekki var gefið upp hvað mönnunum yrði gert ef ekki yrði gengið að kröfum mannræningjanna. Fresturinn rann út í gærmorgun og engir múslimar látnir lausir úr haldi. Það var svo snemma í morgun sem annað myndband með mönnunum var birt og því ljóst að þeim hafði ekki verið gert mein. Þar sögðust þeir hafa tekið upp íslamstrú. Þeir lásu það af blaði. Þá gagnrýndu þeir aðgerðir vesturveldanna í Írak og Afganistan.

Á þeim tíma sem mennirnir voru í haldi reyndu fulltrúar heimastjórnar Palestínumanna hvað þeir gátu til að tryggja lausn mannanna og bar það loks árangur í morgun því þeir voru látnir lausir nokkrum klukkustundum eftir að seinna myndbandið var birt. Þeim var ekið að hóteli í Gaza-borg í morgun og voru þeir fegnir frelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×