Erlent

Líbönsk börn snúa aftur til Beirút

Sextíu líbönsk börn voru flutt aftur í faðm fjölskyldna sinna í Beirút í dag eftir margra vikna fjarveru. Þau voru flutt á brott eftir að Ísraelsher fór að láta sprengjum rigna yfir suðurhluta landsins. Að vonum var um fagnaðarfundi að ræða.

Ættingjar og vinir biðu spenntir eftir börnunum þegar vél þeirra lenti á flugvellinum í Beirút í dag. Blómum rigndi yfir þau og þeim tekið fagnandi og þau umvafin örmum ástvina sinna. Það mátti sjá tár falla og bros leika um varir fólks.

Börnin voru flutt til Frakklands meðan á átökunum stóð og dvöldu í París í boði franska innanríkisráðuneytisins.

Hafn- og flugbann sem Ísraelar settu á Líbanon er enn í gildi og hafa líbönsk stjórnvöld mótmælt því harðlega.

Á fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna með Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í Brussel í Belgíu í gær, tók Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, í sama streng og sagði nauðsynlegt að aflétta banninu.

Á fundinum í gær samþykktu utanríkisráðherrarnir að Evrópusambandsríkin myndu senda um helming þess herliðs sem þarf í fimmtán þúsund manna friðargæslulið á vegum Sameinuðu þjóðanna í Suður-Líbanon.

Annan sagði í gær að hægt yrði að stilla gæsluliðum meðfram landamærunum að Sýrlandi til að koma í veg fyrir flutning vopna til Hizbollah-skæruliða, að því tilskyldu að Líbanar óskuðu þess. Það var svo í dag sem líbönsk stjórnvöld greindu frá því að herlið Líbana myndi gæta landamæranna, ekki gæslulið Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×