Erlent

Utanríkisráðherrar ESB á neyðarfundi vegna friðargæslu

Mikill þrýstingur er á utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna sem funda í dag til að ræða hver eigi að leggja til friðargæsluliðs í Líbanon. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ætlar að tilkynna síðar í dag hvaða þjóð muni leiða friðargæsluna.

Annan, er bjartsýnn á að samningaviðræður um mönnun friðargæsluliðs í Líbanon myndu ganga vel og að markmiðið að ná 15000 manna herliði væri innan seilingar.

Belgar tilkynntu í morgun að þeir myndu leggja til umtalsvert herlið og Chirac Frakklandsforsti, tilkynnti í gær að Frakkar munu alls leggja 2000 manna herlið til friðargæslunnar.Fjöldi franskra hermanna kom til Líbanons í morgun.

Frakkar voru harðlega gagnrýndir á alþjóðavettvangi fyrir að ætla aðeins að senda 200 manns til viðbótar til að gæta friðarins á þessu fyrrum áhrifasvæði sínu. Frakkar stjórnuðu Líbanon, sem og Sýrlandi milli heimsstyrjaldanna fyrri og síðari, eftir að veldi Ottómana leið undir lok og hefur Frakkland haldið góðum stjórnmálatengslum við bæði löndin. Af þessum sögulegu ástæðum telja margir að Frakkar beri vissa ábyrgð á að leggja til friðargæsluliðsins, sem einnig kristallast í því að þeim verður líklega falin stjórn þess, jafnvel þó að Ítalir hafi yfirboðið hermannafjölda Frakka í liðinu og boðist til að leiða það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×