Erlent

Ítalir setja Ísraelum skilyrði

Ítalir munu ekki leiða alþjóðlegt friðargæslulið í Líbanon, eins og þeir höfðu boðist til, ef Ísraelsher hættir ekki árásum sínum á Suður-Líbanon. Utanríkisráðherra Ítalíu, Massimo D'Alema, greindi frá þessu í morgun.

D'Alema setti það skilyrði að Ísrealsher virti vopnahléið að fullu og hætti skotárásum sínum í Suður-Líbanon. Fyrr munu Ítalir ekki leiða alþjóðlegt friðargæslulið Sameinuðu Þjóðanna á svæðinu. Ísraelar segjast hafa skotið þrjá liðsmenn Hizbolla í Suður-Líbanon í gær. Forsætisráðherra Ítalíu, Romano Prodi, lýsti því yfir í gær að Ítalir væri reiðubúnir til að senda 3.000 manna herlið á svæðið en það er mun meiri fjöldi en aðrar þjóðir hafa boðið.

Mun erfiðara hefur reynst að koma saman fimmtán þúsund manna friðargæslulið en búist var við. Flestar Evrópuþjóðir hafa hikað við að manna friðargæsluna og leggja til vopn þar sem þeim finnst reglur um vopnaburð og valdbeitingu gæslunnar óskýrar. Frakkar, sem stjórna nú friðargæsluliði Sameinuðu Þjóðanna í Líbanon hafa boðist til að senda 200 friðargæsluliða til viðbótar við þá 2.000 hermenn sem þegar eru á svæðinu. Búist er við að Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu Þjóðanna, tilkynni hvaða land muni stjórna friðargæslunni fyrir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×