Erlent

Réttarhöld yfir Saddam Hussein hafin að nýju

Saddam Hussein, fyrrverandi forseti Íraks, neitaði í dag að tjá sig um ákæruatriði saksóknara en ný réttarhöld hófust yfir honum í morgun.



Að þessu sinni er réttað yfir Saddam og sjö samverkamönnum hans vegna stríðsglæpa, þjóðarmorða og glæpa gegn mannkyni á árunum 1987-88 þegar sókn ríkisstjórnarinnar í Bagdad gegn Kúrdum, svonefnd Anfal-herferð, stóð yfir. Talið er að um 100.000 manns hafi látið lífið í þessum óhugnanlegu hreinsunum sem Saddam er sagður hafa fyrirskipað til að refsa Kúrdum fyrir að styðja Írana í fyrsta Persaflóastríðinu. Í nokkrum tilvikum beitti stjórnarherinn eiturgasi en einn sjömenninganna sem hafa verið ákærðir er Ali Hassan al-Majid, betur þekktur sem Efnavopna-Ali. Ekki er þó fjallað um gasárásina á kúrdíska bæinn Halabja í þessum réttarhöldum þar sem 5.500 dóu, sérstakt dómhald verður helgað þeim hildarleik. Í morgun sýndi Saddam dómurunum að vanda lítinn samstarfsvilja, fyrst neitaði hann að segja til nafns og þegar hann var spurður um hvort hann væri sekur eða saklaus sagði hann að þeirri spurningu yrði að svara í nokkurra binda bókaflokk. Kveðinn verður upp dómur úr síðustu réttarhöldum yfir Saddam þann 16. október en þessi nýbyrjuðu réttarhöld munu hafa sinn gang jafnvel þó hann verði dæmdur til dauða. Von er á fleiri réttarhöldum að þessum loknum enda var ákveðið áður en byrjað var að rétta yfir Saddam, að sérstök réttarhöld yrðu haldin fyrir hvern og einn þátt í blóðugri forsetatíð hans.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×