Erlent

Á reki í Kyrrahafinu

Þrír mexíkóskir fiskimenn hröktust um Kyrrahafið á lítilli skektu í ellefu mánuði áður en þeim var bjargað við Marshall-eyjar í síðustu viku, tæpa níu þúsund kílómetra í burtu frá heimahöfn þeirra.



Það var í októberbyrjun á síðasta ári sem fimm fiskimenn frá smábænum San Blas í Mexíkó héldu í róður sem varð örlítið lengri en í upphafi stóð til. Fljótlega eftir að þeir voru komnir á miðin bilaði vélin í níu metra löngum bát þeirra og hrifsaði kröftugur austanvindurinn þá með sér langt út á þetta stærsta úthaf jarðar. Tveir reyndu að synda til lands en drukknuðu á leiðinni. Næstu ellefu mánuðina velktust þeir þrír sem eftir voru um Kyrrahafið þar til túnfiskveiðiskip tók þá um borð við Marshalleyjar, tæpa níu þúsund kílómetra í burtu. Bátsverjarnir drógu fram lífið á regnvatni og hráum fiski á meðan en stundum liðu allt upp í tvær vikur á milli þess sem þeir fengu mat. Þeir voru því að vonum býsna svangir þegar þeim var bjargað en að öðru leyti vel á sig komnir enda var um borð Biblía sem veitti þeim andlega næringu. Búist er við að mennirnir snúi aftur til heimabæjar síns eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×