Erlent

Ísraelar yfirgefa hluta Suður-Líbanons

MYND/AP

Ísraelskt herlið er nú að yfirgefa hluta af Suður-Líbanon og eftirlætur líbönsku herliði og alþjóðlegum friðargæsluliðum að gæta vopnahlés milli Hisbollah og Ísraelshers.

Líbanskir hermenn eru nú komnir suður fyrir Litani-ána margumtöluðu sem markar hernaðarlega mikilvæg mæri þess svæðis sem Ísraelar vilja hafa sem öryggissvæði fyrir norðan landamæri sín.

Utanríkisráðherra Ísraels tilkynnti í morgun að ísraelsher myndi draga sig til baka af helmingi þess svæðisins eftir því sem líbanski herinn nær þangað. Ísraelsmenn hafa þegar vikið fyrir friðargæsluliðum sem fyrir voru í Líbanon í svonefndum UNIFIL-sveitum á nokkrum stöðum og látið þeim eftir að tryggja frið, meðal annars í bænum Marjayoun, þar sem átök voru hörð.

Frakkar hafa samþykkt að leiða 15 þúsund manna friðargæslulið til viðbótar sem ætlunin er að senda til Líbanons á næstu dögum og vikum. Þeir munu einnig leggja til vænan hluta þess liðs en enn er ekki fullvíst hvaða lönd önnur muni leggja til mannskap til friðargæsluliðanna. Þeir eru þó varkárir og vilja vera í sátt við alla aðila, ríkisstjórnirnar í Líbanon og Ísrael, sem og skæruliðasamtökin Hisbollah. Umfram allt vilja þeir forðast að dragast inn í blóðug átök sem gætu blossað upp ef þeir reyna að afvopna Hisbollah með valdi en að sama skapi má friðargæsluliðið ekki verða máttlausir áhorfendur ef það hefur ekki heimild til beitingar vopna ef með þarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×