Erlent

Flóttamenn halda heim

Kona gengur um rústir húss síns í Beirút, höfuðborg Líbanons.
Kona gengur um rústir húss síns í Beirút, höfuðborg Líbanons. MYND/AP

Líbanskir flóttamenn héldu margir hverjir til síns heima í dag þegar vopnahlé í átökum Ísraela og Hizbollah-skæruliða tók gildi. Þeir vonast til að geta haldið lífi sínu áfram þar sem frá var horfið áður en árásir Ísraela á Líbanon hófust fyrir rúmum fjórum vikum.

Örtröð er á þröngum stígum og götum í Suður-Líbanon þar sem mörg þúsund brottfluttir Líbanar snúa aftur til síns heima. Fjórðungur Líbana lagði á flótta undan sprengjum Ísraela sem dundu á svæðinu í tæpar fjórar vikur, eða allt þar til í morgun. Þessi flóttamenn hafa því í dag brotið gegn ferðabanni sem Ísraelar settu á og er enn í gildi. Borgir á svæðinu er margar hverjar rústir einar og vissu fjölmargir flóttamenn sem sneru aftur til síns heima ekki hvort nokkuð heillegt biði þeirra við heimkomuna.

Hreinsunaraðgerðir í Týrus og Beirút eru hafnar. Í Týrus reyna íbúar að halda eðlilegu lífi áfram í rústum borgarinnar. Í Beirút berjast slökkviliðsmenn við elda sem loga enn í rústum húsa í úthverfum borgarinna.

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að það vopnahlé sem tók gildi milli Ísraela og skæruliða Hizbollah í Líbanon snemma í morgun héldi. Hann hvatti Líbana og Ísraela til að vinna hratt að því að tryggja varanlegt vopnahlé í samvinnu við friðargæslulið frá Sameinuðu þjóðunum og í samræmi við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því á föstudaginn. Þrátt fyrir það féll einn Hizbollah-skæruliði þegar ísraelskur hermaður skaut að liðsmönnum samtakanna í Suður-Líbanon í dag.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, ávarpaði ísraelska þingið í dag. Hann sagði Ísraela ætla að elta uppi leiðtoga Hizbollah hvar og hvenær sem væri. Auk þess hefðu Ísraela áskilið sér rétt til að bregðast við hvers konar brotum á vopnahléssamkomualginu. Olmert sagði leiðtoga Hizbollah í felum en fullvissaði þingið um að þeir myndu ekki sleppa við refsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×