Erlent

Reglur um handfarangur rýmkaðar í Bretlandi

Frá flugvellinum í Birmingham í morgun.
Frá flugvellinum í Birmingham í morgun. MYND/AP
Yfirvöld í Bretlandi hafa lækkað viðbúnaðarstig í landinu vegna hryðjuverkahættu úr hættuástandi í viðbragðsstig. Um leið hafa reglur um handfarangur farþega í flugvélum verið rýmkaðar.



Hættuástand hefur verið í gildi í Bretlandi frá því á fimmtudag þegar greint var frá því að tekist hefði að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn sprengdu upp nokkrar flugvélar á leið frá Bretlandi til Bandarríkjanna. Á þriðja tug manna hefur verið handtekinn, grunaður um aðild að málinu.



John Reid, innnanríkisráðherra Bretlands, sagði á blaðamannafundi í morgun að enn væri mikil hætta á hryðjuverkaárás eða árásum en hættan væri ekki yfirvofandi. Hann hvatti landa sína til þess að vera á varðbargi.



Um leið og viðbúnaðarstigi var breytt voru reglur um handfarangur í flugi rýmkaðar aðeins. Reglurnar taka gildis strax en verður ekki beitt fyrr en á morgun á stærstu flugvöllum Bretlands. Samkvæmt þeim má hver farþegi taka einn hlut með sér um borð en hann má ekki fara yfir tiltekna stærð. Enn er blátt bann við öllum vökva um borð að undanskildum nauðsynlegum lyfjum og barnamjólk og barnamat.



Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli og flugvallarstjóri hafa í morgun borið saman bækur sínar í kjölfar fréttanna en að sögn Jóhanns R. Benediktssonar sýslumanns er ekki komin endanleg niðurstaða um það hvort rýmka eigi reglunar á Keflavíkurflugvelli. Þær hafi ekki verið jafnstrangar og í Bretlandi og því geti vel farið svo að reglurnar verði óbreyttar. Niðurstaða í málinu liggi fyrir síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×