Erlent

Líbanar bjóðast til að senda herlið til suðurhlutans

Ísraelskur hermaður við mynd af Sheik Hassan Nasrallah, leiðtoga Hizbollah
Ísraelskur hermaður við mynd af Sheik Hassan Nasrallah, leiðtoga Hizbollah MYND/AP

Ísraelsk stjórnvöld ákveða í dag hvort herlið þeirra verður sent lengra inn í Líbanon til að berjast við Hizbollah-skæruliða. Frakkar og Bandaríkjamenn endurskoða nú uppkast sitt að ályktun sem lögð verður fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og miðar að því að binda enda á átökin í Líbanon.

Frakkar og Bandaríkjamenn hlýddu á kröfur Líbana þegar þeir funduðu með sendifulltrúum Arababandalagsins í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Þar var gerð grein fyrir kröfu líbanskra stjórnvalda um að í ályktuninni yrði gert ráð fyrir tafarlausu vopnahléi. Einnig var greint frá því að Líbanar væru reiðubúnir að senda fimmtán þúsund manna herlið að landamærunum að Ísrael um leið og Ísraelsher hefði dregið herlið sitt frá Suður-Líbanon. Ekki er talið líklegt að miklar breytingar verði gerðar á ályktunartillögunni, sem var kynnt um helgina, þar sem Frakkar og Bandaríkjamenn eru því andvígir. Rússar, sem hafa neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að samþykkja ályktun sem njóti ekki stuðnings Líbana. Það er því ljóst að eitthvað er í að niðurstaða fáist í málinu og alls óvíst hvenær verður hægt að greiða atkvæði um ályktunina í ráðinu.

Ísraelskir hermenn hafa barist við skæruliða nærri landamærunum að Ísrael í nótt á meðan flugvélar Ísraela hafa látið sprengjum rigna yfir Suður-Líbanon. Mörg þúsund ísraelskir hermenn héldu að landamærunum að Líbanon í nótt.

Öryggisráð ísraelska þingsins kemur saman til fundar í dag það sem búist er við að það samþykki áætlun sem felur í sér að herlið haldi lengra inn í Líbanon, að ánni Litani sem er um þrjátíu kílómetra inn í landi. Ísraelar hafa þó gefið í skyn að sú áætlun gæti verið lögð til hliðar ef líbönsk stjórnvöld senda hermenn til suðurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×