Erlent

Stefnubreyting liggur í loftinu

Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu.
Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínu. MYND/AP

Vel fór á með þeim Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, á óformlegum fundi þeirra í Jórdaníu í dag. Teikn eru á lofti um að Hamas-samtökin muni senn viðurkenna tilverurétt Ísraelsríkis.

Fundur leiðtoganna var sá fyrsti frá því að Olmert tók við embætti forsætisráðherra á vordögum og miðað við þau blíðuhót sem þeir sýndu hvor öðrum í Petra í Jórdaníu í morgun virðist ágætis samstarf vera í uppsiglingu.

Fundurinn í morgun var óformlegur en annar fundur er áformaður á næstu tveimur vikum þar sem sambúð ríkjanna verða rædd af meiri þunga. Ekki er þó búist við að eiginlegar samningaviðræður fari þar fram því Ísraelsstjórn hefur alfarið hafnað slíkum þreifingum á meðan ríkisstjórn Hamas-samtakanna skirrist við að viðurkenna tilverurétt Ísraels og afvopnast. Ástandið á herteknu svæðunum er ekki með þeim hætti um þessar mundir að sáttahugur sé í íbúum þeirra. Í dag fór fram jarðarför systkina á Gaza-ströndinni sem létust eftir að ísraelsk sprengja, sem ætluð var uppreisnarmönnum, féll á hús þeirra. Því er ekki að undra að hljóðið í ráðamönnum sé dökkt.

Breska blaðið Guardian greinir raunar frá í því dag að leiðtogar Hamas-samtakanna hafi í meginatriðum fallist á tillögu nokkurra palestínskra andófsmanna, sem sitja ísraelskum fangelsum, þar sem kveðið er á um friðsamlega sambúð ríkjanna til að komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið sem Abbas hefur hótað. Meiriháttar stefnubreyting gæti því verið í farvatninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×