Sport

Stórleikur Vince Carter tryggði Nets sigurinn

Vince Carter fagnar hér eftir að hafa klárað leikinn fyrir Nets þegar 28 sekúndur voru eftir - með háloftatroðslu með vinstri hendi
Vince Carter fagnar hér eftir að hafa klárað leikinn fyrir Nets þegar 28 sekúndur voru eftir - með háloftatroðslu með vinstri hendi NordicPhotos/GettyImages

New Jersey Nets náði í nótt 3-2 forystu í einvígi sínu við Indiana Pacers í fyrstu umferð úrslitakeppni Austurdeildarinnar í NBA. Það var ekki síst fyrir stórleik Vince Carter sem heimamenn í New Jersey náðu að knýja fram nauman 92-86 sigur, en Carter skoraði 34 stig og hirti 15 fráköst. Jason Kidd setti félagsmet með 15 stoðsendingum. Jermaine O´Neal var stigahæstur í liði Indiana með 19 stig þrátt fyrir að eiga við meiðsli að stríða.

"Það var dæmigert fyrir Vince Carter að gera út um leikinn með þessum hætti, en við erum ekki að velta okkur svo mikið upp úr því hvernig hann fór að því að skora þessi stig - það var mikilvægi stiganna tveggja sem skipta máli. Vince er búinn að skora margar af ótrúlegustu körfum í sögu deildarinnar, en í kvöld var skotið hans gríðarlega mikilvægt," sagði félagi hans Richard Jefferson hjá New Jersey, sem sjálfur lék vel og skoraði 24 stig.

Næsti leikur fer fram á heimavelli Indiana, en nú vantar New Jersey aðeins einn sigur til að komast áfram í einvíginu. Jermaine O´Neal spilaði með Indiana þrátt fyrir meiðsli, en auk þess voru byrjunarliðsmennirnir Peja Stojakovic og Jamal Tinsley ekki með í nótt vegna meiðsla og munar að sjálfssögðu um minna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×