Bíó og sjónvarp

Hver átti að leika hvern?

Tom Selleck hafnaði hlutverki Indiana Jones og lék frekar í skammlífum lögregluþáttum.
Tom Selleck hafnaði hlutverki Indiana Jones og lék frekar í skammlífum lögregluþáttum.

Þegar leikarar í Hollywood velja sér hlutverk í kvikmyndum, þurfa þeir að vera afar passasamir. Röng hlutverk gætu komið harkalega niður á vinsældum þeirra og auðvelt er að veðja á rangan hest. Eins þurfa framleiðendur að vera mjög varkárir þegar þeir velja leikara í hlutverk, en hinn almenni áhorfandi er mjög kröfuharður.

Taka þarf með í reikninginn að stjarnan gæti verið á gráu svæði gagnvart áhorfendum, eins og til dæmis þeir Tom Cruise, Mel Gib-son og Michael Richards eru í dag eða ef áhorfandinn hefur skýra og ákveðna hugmynd um hvernig einhver persóna á að líta út. Eitt frægasta dæmi Hollywood um leikara sem hafnaði hlutverki er þegar mottukonungurinn Tom Selleck hafnaði hlutverki Indiana Jones.

Tom vildi heldur leika í sjónvarpsþáttunum Magnum P.I og sem betur fer var það Íslandsvinurinn sjálfur Harrison Ford sem fékk hlutverkið. Fleiri leikarar hafa hafnað eða verið útilokaðir frá stórum rullum og kemur listinn manni mjög á óvart.

Gibson sem The Gladiator
Mel Gibson hafnaði Batman, Gladiator og JFK svo nokkur dæmi séu tekinn.

Leikarinn Mel Gibson hefur hafnað fleiri stórum hlutverkum en nokkrum öðrum leikara hefur verið boðið. Segir sagan að honum hafi verið boðið hlutverk rómverska hershöfðingjans Maximusar í kvikmyndinni The Gladiator en að hann hafi hafnað því. Eins og frægt er þá fékk Russell Crow hlutverkið og vann Óskarsverðlaun fyrir.

Russell Crowe hefur í tvígang þurft að sætta sig við afganga Gibsons, en Mel var einnig boðið aðalhlutverk í kvikmyndinni Proof of Life. Þá hefur Kevin Costner einnig þurft að sætta sig við dreggjarnar en Gibson var efst á blaði leikstjórans Olivers Stone fyrir aðalhlutverk í kvikmyndinni JFK. Gibson þurfti svo að hafna hlutverki ofurhetjunnar Batman þó hann væri allur af vilja gerður, en hann hafði þá þegar skuldbundið sig til þess að leika í kvikmyndinni Lethal Weapon 2 á sama tíma.

Cruise fékk ekki að dansa
Tom Cruise, væru hlutirnir í dag öðruvísi hefði hann leikið í Footloose?
Leikarinn Tom Cruise hefur fengið mörg tilboð sem hann hefur þurft að hafna. Verst þótti honum að þurfa að afþakka aðalhlutverk kvikmyndarinnar Footloose, Tom var víst búinn að dusta rykið af dansskónum, en sökum skuldbindinga sinna við framleiðendur myndarinnar All the right moves þurfti hann að rétta Kevin Bacon skóna. Af sömu ástæðum varð Cruise að hafna hlutverki Donnie Brasco í samnefndri mynd, en þá var hann upptekinn við upptökur á kvikmyndinni Eyes Wide Shut eftir Stanley Kubrick. Hver átti að leika Han Solo?
Harrison Ford stóð fyrir sínu, en sagan segir að Al Pacino hafi neitað hlutverkinu.

Sagan segir að eftir að George Lucas gerði American Graffiti hafi hann komist að því að Harrison Ford væri lunkinn smiður, en Ford lék aukahlutverk í myndinni. Hann hafi því ráðið hann til þess að smíða skápa á heimili sínu og í leiðinni notað hann til þess að leiklesa með leikurum sem komu í prufur fyrir Star Wars.

Steven Spielberg fannst Harrison svo kjörinn í eitt hlutverkanna og þannig á Harrison að hafa hreppt hlutverk Han Solo, sem skaut honum upp á stjörnuhimininn. Samkvæmt George Lucas voru það margir leikarar sem voru íhugaðir í hlutverk Solo meðal annars Silvester Stallone, Burt Reynolds, Nick Nolte, Kurt Russell, Christopher Walken og síðast en ekki síst Al Pacino. Sá síðastnefndi er sá eini sem var boðið hlutverkið, sem hann augljóslega hafnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×