Erlent

Rumsfeld hverfur úr embætti

Donald Rumsfeld situr í embætti þangað til nýkjörið þing hefur fallist á eftirmann hans.
Donald Rumsfeld situr í embætti þangað til nýkjörið þing hefur fallist á eftirmann hans.

„Þetta byrjaði að þróast smám saman," sagði Tony Snow, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, í gær um brotthvarf hins umdeilda varnarmálaráðherra Donalds Rumsfeld.

Snow hélt því fram að þeir Rumsfeld og Bush forseti hefðu ekki tekið þessa ákvörðun í neinni skyndingu þegar ljóst var að kjósendur hefðu hafnað stefnu þeirra í Írak, eins og margir hafa talið, heldur hafi ákvörðunin átt sér mun lengri aðdraganda.

Rumsfeld er eini maðurinn sem tvisvar hefur gegnt embætti varnarmálaráðherra. Fyrst var það á árunum 1975 til 1977, þegar Gerald Ford var forseti, og þá var hann yngsti maður sem nokkru sinni hafði gegnt þessu embætti. Síðan tók hann aftur við því í ársbyrjun 2001 þegar George Bush var orðinn forseti, og er nú elsti maðurinn sem gegnt hefur þessu starfi.

Rumsfeld hefur annars ekki látið aldurinn flækjast mikið fyrir sér. Þótt hann sé orðinn 74 þykir hann fullur orku og hefur til að mynda jafnan haft þann sið að standa við púlt á skrifstofu sinni í Pentagon-byggingunni, frekar en að sitja við skrifborð.

Til marks um ósvífni hans, sem hefur farið í taugarnar á mörgum, jafnt samstarfsmönnum sem andstæðingum, má nefna stutta athugasemd sem hann skrifaði í desember árið 2002 á minnisblað bandaríska hersins um aðferðir, sem beita mátti við yfirheyrslur fanga í Guantanamo. Eftir að hafa undirritað skjalið, og þar með veitt heimild sína meðal annars til að láta fangana standa í „álagsstöðu" í allt að fjóra tíma, skrifaði Rumsfeld: „Hins vegar stend ég sjálfur í 8 til 10 tíma á dag. Hvers vegna er staða takmörkuð við fjóra tíma?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×