Erlent

Dvínandi gildi hornsteinanna

Sýnilegasta framlag Íslands til sameiginlegs öryggis NATO er Íslenzka friðargæzlan. Hér sjást liðsmenn hennar í Kabúl í Afganistan.
Sýnilegasta framlag Íslands til sameiginlegs öryggis NATO er Íslenzka friðargæzlan. Hér sjást liðsmenn hennar í Kabúl í Afganistan. ljósmynd/víkurfréttIR

Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin hafa í meira en hálfa öld verið hornsteinar öryggis- og varnarmálastefnu Íslands. Margt hefur grafið undan þessum hornsteinum á síðustu árum.

Önnur grein.

"Tímabært er að samstarf [Íslands við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið í öryggis- og varnarmálum] verði aðlagað frekar þeim breytingum sem orðið hafa í umheiminum á síðustu árum og að Íslendingar taki aukinn þátt í vörnum landsins."

Þetta mátti lesa í skýrslunni "Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót", fylgiskjali með ræðu utanríkisráðherra á Alþingi 25. febrúar 1999, en höfundar þess voru þáverandi fastafulltrúi Íslands í höfuðstöðvum NATO og þáverandi yfirmenn skrifstofa varnarmála og alþjóðamála í utanríkisráðuneytinu.

Sex og hálfu ári eftir að þessi orð voru skrifuð gerðist það loks, að þetta samstarf var "aðlagað frekar þeim breytingum sem orðið hafa í umheiminum á síðustu árum" með einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um brottför varnarliðsins og nýju samkomulagi um framhald varnarsamstarfs landanna án fastrar viðveru bandarísks herliðs hérlendis.

Enn er hins vegar eftir að skilgreina nánar með hvaða hætti Íslendingar taka aukinn þátt í vörnum landsins.

Grefst undan hornsteinum varnarstefnunnar
NATO og Ísland Frá utanríkisráðherrafundi NATO í Reykjavík í júní 2002. Breytingarnar sem orðið hafa á NATO frá lokum kalda stríðsins hafa dregið úr gildi þess fyrir varnir Íslands, þótt enn sé aðildin að bandalaginu meðal hornsteina öryggis- og varnarmálastefnu landsins. nordicphotos/afp

Í skýrslum utanríkisráðherra til Alþingis um utanríkismál hefur í áratugi verið fastur liður að geta þess, að hornsteinar öryggis- og varnarmálastefnu Íslands væru aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þetta tvennt hefur tryggt varnir Íslands í yfir hálfa öld.

En óhætt er að fullyrða að gildi hvors tveggja hefur rýrnað á síðustu árum. NATO hefur breytzt úr hávígvæddu varnarbandalagi Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku gegn sovézku ógninni í kalda stríðinu, í laustengdari öryggismálasamtök hátt í þrjátíu ríkja - eða yfir fjörutíu ríkja ef með eru talin öll samstarfsríkin í Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu. Hinni miklu fjölgun aðildarríkja í bandalaginu hefur fylgt, að kjölfesturíkið Bandaríkin hefur að mörgu leyti hætt að líta á NATO sem meginumgjörð tengsla við bandamenn sína.

Og margir eiga erfitt með að sjá að "hreyfanlegar varnir" og leynileg varnaráætlun nýja samkomulagsins við Bandaríkin jafnist á við þær "sýnilegu og trúverðugu" varnir sem hér voru með varnarliðinu, einkum og sér í lagi með orrustuþotum þess.

Atlantshafsbandalagið hið nýja

Allt frá því járntjaldið féll og Varsjárbandalagið var leyst upp í byrjun tíunda áratugarins hefur andláti NATO ítrekað verið spáð. Slíkum spám fjölgaði til muna er deilurnar stóðu sem hæst um Íraksstríðið árið 2003. Sérfræðingar telja þó að ástæðulaust sé að ætla annað en að NATO takist að tryggja tilveru sína um fyrirsjáanlega framtíð.

"Frá því um aldamótin hafa ráðamenn bandalagsins lært að virða og starfa innan þeirra takmarkana sem bandalagið verður að virða ef það á að lifa af," skrifar danski varnarmálafræðingurinn Sten Rynning í nýjasta NATO Review.

Rynning segir að í lok tíunda áratugarins hafi "pólitískur metnaður og raunveruleikinn lent í árekstri í Kosovo", sem hafi leitt til verstu kreppu NATO frá því kalda stríðinu lauk, og sú kreppa dýpkaði enn í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001 og hernaðarins sem fylgdi í kjölfarið í Afganistan og Írak.

Að sögn Rynnings er metnaður NATO nú kominn í betri takt við veruleikann og bandalagið á góðri leið með að endurnýja sig. Íhlutun NATO í Kosovo, fyrsta "utan-svæðis"-hernaðaraðgerð bandalagsins, leiddi til djúpstæðra deilna innan bandalagsins um það hvert hlutverk þess skyldi vera. Þessar deilur leiddu Bandaríkjamenn til að álykta að hernaðaraðgerðir sínar framkvæmdu þeir heldur án þess að blanda hinu fjölþjóðlega bandalagi í þær, og leiðandi ríki meginlands-Evrópu til að styðja frekar nýja öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins.

Deilurnar sýndu í reynd að ekki væri lengur hægt að halda sömu einingu innan bandalagsins og hin sameinandi ógn úr austri hafði gert mögulega allan kaldastríðstímann. "Lærdómar sem dregnir voru af þessu urðu kveikjan að breyttum áherslum NATO. " Umskiptaáætlunin sem nú stendur til að uppfæra [á leiðtogafundinum] í Ríga [í lok þessa mánaðar], endurspeglar að pólitískur metnaður er kominn í takt við veruleikann," skrifar Rynning. "Útgangspunkturinn er ekki metnaður til einingar um allar aðgerðir, heldur þörfin á að byggja upp bandalag sem stendur sameinað en er sveigjanlegt, þar sem mismunandi samsettir hópar aðildarríkja taka höndum saman um ólík verkefni á grunni hagsmuna og getu."

Kjarninn í aðdráttarafli NATO er enn fimmta grein stofnsáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll, og að á bak við þá tryggingu standi kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna og sameinaður hernaðarmáttur aðildarríkjanna. Enda bíða þjóðir í Suðaustur- og Austur-Evrópu enn í röðum eftir að fá inngöngu í bandalagið. Hugmyndir um að raðir þess verði opnaðar fyrir samherjum fjarri Evrópu og Atlantshafssvæðinu á borð við Ástralíu og Japan og verði þar með eins konar "OECD öryggismála" hafa þó ekki hlotið hljómgrunn innan bandalagsins, enn sem komið er að minnsta kosti.

Bandamönnum gert lægra undir höfði

Er Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir að framvegis myndi hvert verkefni ráða því hvaða bandamenn Bandaríkin fengju til liðs við sig, virtist hann með því ætla NATO veigaminna hlutverk. En ófarirnar í Írak hafa kennt ráðamönnum í Washington að án bandamanna getur jafnvel mesta herveldi sögunnar ekki verið, ætli það sér að ná árangri í öðrum eins metnaðarfullum verkefnum og að "flytja út" lýðræði og gildi réttarríkis og mannréttinda til heimshluta eins og Miðausturlanda. Þetta eru einmitt þau gildi sem NATO stendur vörð um. Þetta hefur aukið aftur gagnsemi NATO í augum ráðamanna vestra. Í nýjustu þjóðaröryggisáætlun Bandaríkjanna (National Security Strategy) stendur að NATO-samstarfið sé enn grundvallarþáttur í bandarískri varnarmálastefnu.

Þegar þjóðaröryggisáætlanir Bandaríkjanna sem gerðar hafa verið í sex ára stjórnartíð George W. Bush (frá árinu 2002 og 2006) eru skoðaðar nánar, er annars greinilegt að samstarfi við bandamenn er þar gert mun lægra undir höfði en áður var. Michael T. Corgan, dósent við Boston-háskóla og gestakennari í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands, kemst að þeirri niðurstöðu í nýrri rannsókn á þessu efni, að "mikilvægi Íslands í varnaráætlunum Bandaríkjanna " er nú aðeins skugginn af því sem það var einu sinni." Varnarþarfir Íslands séu lentar mjög neðarlega í forgangsröðun utanríkis- og öryggismálastefnu Bandaríkjanna.

Hernaðargetugjáin

Á fyrstu árunum eftir lok kalda stríðins drógu evrópsku NATO-ríkin verulega úr útgjöldum til varnarmála. Þessi samdráttur jók enn á það gríðarstóra bil sem er á milli hernaðargetu Evrópuríkjanna annars vegar og Bandaríkjanna hins vegar. Að evrópsk varnarútgjöld deilist þar að auki á ótal aðskilda heri þjóðríkjanna gerir þau enn óskilvirkari í samanburðinum við Bandaríkin. Þessi "getugjá" á sinn þátt í léttara vægi NATO í huga bandarískra ráðamanna. Bandaríkjamenn hafa lengi þrýst mjög á evrópska bandamenn sína að auka útgjöld til varnarmála og fjárfesta í samhæfðari og skilvirkari herafla sem betur er í stakk búinn að bregðast við hættum og verkefnum nútímans.

Þetta hefur meðal annars orðið til þess að NATO hefur gert nýju aðildarríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu, þar á meðal Eystrasaltslöndunum þremur, að gera skuldbindandi áætlanir um að auka framlög sín til varnarmála í áföngum upp í tvö prósent af vergri landsframleiðslu.

Þar sem Eystrasaltslöndin þiggja aðstoð annarra NATO-landa við að annast lofthelgiseftirlit í lögsögu þeirra, sem að miklu leyti er kostað af útgerðarríkjum þotnanna sem sinna því, leggja stjórnvöld í Tallinn, Ríga og Vilníus sig fram um að standa undir þessum væntingum NATO, þrátt fyrir að þröngt sé í búi hjá sovétlýðveldunum fyrrverandi.

Dreifing byrða og Ísland

Erfitt er að sjá að NATO, eða eitthvert eitt eða fleiri evrópsk aðildarríki bandalagsins, muni taka í mál að efla varnarskuldbindingar sínar gagnvart Íslandi nema gegn því að Íslendingar leggi mun meira "í púkkið" en þeir gera nú.

Um þetta segir varnarmálafræðingurinn Julian Lindley-French við rannsóknamiðstöðina Centre for Applied Policy við Münchenarháskóla: "Jafnvel minnstu aðildarþjóðir bandalagsins verða að hlíta því að á meðan aðild færir þeim öryggi hins sterkasta, verða þau einnig að axla sinn skerf af alþjóðlegum skuldbindingum."

Leiðrétt: Þau mistök urðu við vinnslu korts af varnarsvæðinu sem birtist í blaðinu í gær að Sandgerði var merkt sem Hafnir.

Á MORGUN: Varnarsamstarf við Norðurlönd?

Helstu atriði varnarsamstarfs

• Varnaráætlun Bandaríkjanna gerir ráð fyrir að varnir Íslands séu tryggðar með hreyfanlegum viðbúnaði og liðsafla, stutt bandarískum hernaðarmætti.

• Gerðar eru ráðstafanir til að tryggja hröð og skilvirk samskipti milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda á hættutímum, þar á meðal við hernaðaryfirvöld.

• Bandaríkin ætla að halda árlega tvíhliða eða fjölþjóðlegar heræfingar á íslensku landsvæði og í íslenskri lofthelgi og landhelgi.

• Bandaríkin munu reka fjórar ratsjárstöðvar íslenska loftvarnarkerfisins til 15. ágúst 2007. Viðræður um fjármögnun starfseminnar hefjast milli ríkjanna og NATO.

• Reglubundið samráð verður viðhaft milli Íslands og Bandaríkjanna um öryggismál. Mun það samráð vera á vettvangi ráðherra en einnig embættismanna.

• Skipaður verður fulltrúi Íslands hjá Evrópuherstjórn Bandaríkjanna í Stuttgart í Þýskalandi, sem mun annast tengsl við bandarísk hernaðaryfirvöld og upplýsingamiðlun.

• Leitað verði leiða til að auka samstarf milli bandarísku strandgæslunnar og Landhelgisgæslunnar með æfingum, þjálfun og starfsmannaskiptum

• Bandaríkin og Ísland ætla að auka og styrkja samstarf á sviði löggæslu og landamæraöryggis til þess að hamla gegn og verjast ógnum sem steðja að báðum ríkjum.

Ágrip af sögu NATO

1949: Norður-Atlantshafssáttmálinn undirritaður í Washington af Bandaríkjunum, Kanada, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Íslandi, Ítalíu, Lúxemborg, Noregi og Portúgal.

1952: Grikkland og Tyrkland ganga í bandalagið.

1955: Vestur-Þýskaland gengur í NATO - Sovétríkin koma á fót Varsjárbandalaginu.

1966: De Gaulle Frakklandsforseti dregur Frakkland út úr hermálakerfi NATO.

1982: Spánn gengur í NATO.

1991: Varsjárbandalagið leyst upp.

1993: Frakkland aftur til liðs við hermálasamstarfið. NATO stofnar til „Samstarfs í þágu friðar“ við fyrrverandi aðildarríki Varsjárbandalagsins.

1995: Fyrsta hernaðaraðgerð í nafni NATO - loftárásir á stöðvar Bosníu-Serba sem sitja um Sarajevo.

1999: Pólland, Ungverjaland og Tékkland fyrstu fyrrverandi austantjaldslöndin sem fá inngöngu í NATO.

12. sept. 2001: Fimmta grein Norður-Atlantshafssáttmálans virkjuð í fyrsta sinn er því er lýst yfir að hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin hafi verið árás á NATO í heild.

2002: NATO og Rússland undirrita víðtækan samstarfssamning, þar sem m.a. er heitið samstöðu í baráttu gegn hryðjuverkum og gereyðingarvopnum.

Febrúar 2003: Eftir harðar deilur í aðdraganda innrásar Bandaríkjamanna og bandamanna í Írak samþykkir NATO að styrkja landvarnir Tyrklands.

Ágúst 2003: NATO tekur við stjórn fjölþjóðaherliðsins í Afganistan. Fyrsta verkefni NATO utan Evrópu og N-Ameríku.

2. apríl 2004: Sjö ríki í A-Evrópu ganga í NATO: Eistland, Lettland, Litháen, Slóvakía, Slóvenía, Rúmenía og Búlgaría. Aðildarríkin þar með orðin 26.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×